Fótbolti

Draumar Jasmínar halda áfram að rætast

Sindri Sverrisson skrifar
Jasmín Erla Ingadóttir hefur átt stórkostlegt ár.
Jasmín Erla Ingadóttir hefur átt stórkostlegt ár. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Jasmín Erla Ingadóttir hefur átt frábæra síðustu daga og í dag var hún svo valin í íslenska landsliðið sem á fyrir höndum úrslitaleik um sæti á HM í fótbolta.

Jasmín Erla hefur verið algjör lykilmaður í liði Stjörnunnar í sumar og endaði um helgina sem markadrottning Bestu deildarinnar, með 11 mörk, og fagnaði um leið Evrópusæti og silfurverðlaunum Stjörnunnar.

Í dag var hún kölluð inn í íslenska landsliðshópinn en Þorsteinn Halldórsson varð að gera breytingu eftir að Valskonan Elín Metta Jensen tilkynnti að hún hefði lagt skóna á hilluna.

Jasmín Erla kemur því ný inn í hópinn sem æfir á Algarve í þessari viku og undirbýr sig fyrir úrslitaleikinn sem verður við sigurliðið úr leik Portúgals og Belgíu sem fram fer á fimmtudag. Íslenska liðið mun spila úrslitaleikinn á þriðjudaginn í næstu viku en það skýrist sem sagt ekki fyrr en eftir leik Portúgals og Belgíu gegn hvoru liðinu, og í hvoru landinu, leikurinn verður.

Jasmín Erla á að baki 23 leiki fyrir yngri landslið Íslands og hefur skorað í þeim tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×