Fótbolti

Sara mætir hinum meisturunum og Barcelona er í Íslendingariðli

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir hefur tvívegis orðið Evrópumeistari, með Wolfsburg og Lyon, og nú spilar hún með Juventus í riðlakeppninni.
Sara Björk Gunnarsdóttir hefur tvívegis orðið Evrópumeistari, með Wolfsburg og Lyon, og nú spilar hún með Juventus í riðlakeppninni. Getty/Jonathan Moscrop

Sara Björk Gunnarsdóttir fer á sinn gamla heimavöll í Lyon og þarf einnig að takast á við Arsenal, í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í vetur. Fjöldi íslenskra landsliðskvenna er í liðunum 16 sem spila í keppninni.

Dregið var í riðla í dag og má sjá þá hér að neðan. Sara varð Evrópumeistari með Lyon í vor en fór þaðan til Ítalíumeistara Juventus sem eiga nú afar krefjandi verkefni fyrir höndum við að komast áfram í átta liða úrslitin.

  • A-riðill
  • Chelsea
  • PSG
  • Real Madrid
  • Vlaznia
  • B-riðill
  • Wolfsburg
  • Slavia Prag
  • St. Pölten
  • Roma
  • C-riðill
  • Lyon
  • Arsenal
  • Juventus
  • Zürich
  • D-riðill

  • Barcelona
  • Bayern München
  • Rosengård
  • Benfica

Bayern München, sem þær Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir spila með, dróst í riðil með Barcelona sem varð Evrópumeistari 2021 og fékk silfur í ár.

Í sama riðli eru einnig Svíþjóðarmeistarar Rosengård, með Guðrúnu Arnardóttur í broddi fylkingar, og ljóst að þeir eiga erfitt verkefni fyrir höndum, sem og Benfica sem Cloé Eyja Lacasse leikur með.

Sveindís mætir liðinu sem sló út Val

Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur í Wolfsburg höfðu heppnina með sér og fengu Slavia Prag, liðið sem sló út Val, úr næstefsta styrkleikaflokki í sinn riðil. St. Pölten frá Austurríki og Roma frá Ítalíu eru einnig í riðlinum.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir og lið hennar PSG eru svo í riðli með Englandsmeisturum Chelsea, Real Madrid og Vlaznia frá Albaníu.

Leikið er í riðlakeppninni frá 19. október til 22. desember og komast tvö efstu lið úr hverjum riðli áfram í 8-liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×