Erlent

Segja for­sætis­ráð­herrann mega sitja á­fram

Atli Ísleifsson skrifar
Frá mótmælum eftir að stjórnlagadómstóll Taílands tilkynnti um niðurstöðu sína.
Frá mótmælum eftir að stjórnlagadómstóll Taílands tilkynnti um niðurstöðu sína. AP

Stjórnlagadómstóll Taílands hefur úrskurðað að forsætisráðherranum Prayuth Chan-ocha sé heimilt að sitja áfram í embætti. Deilur hafa staðið um hvort hann hafi setið lengur í embætti en lög landsins gera ráð fyrir.

Dómstóllinn tilkynnti í lok ágúst síðastliðinn að forsætisráðherrann skyldi tímabundið vikið úr embætti á meðan mál hans væri til meðferðar.

Nokkur fjöldi manna mótmælti fyrir utan dómstólinn á föstudaginn og hafa ýmsir hópar hótað því að standa fyrir fjöldamótmælum vegna niðurstöðunnar.

Stjórnarandstaðan í Taílandi vill meina að Prayuth Chan-ocha ætti að fara frá þar sem stjórnarskrá landsins geri ráð fyrir að forsætisráðherra geti einungis setið í átta ár í embætti. Hann tók við embættinu árið 2014 eftir valdarán hersins og vildi stjórnarandstaðan meina að þessi átta ár hafi runnið sitt skeið í lok ágúst.

Stuðningsmenn Prayuth, og nú stjórnlagadómstóllinn, voru hins vegar ekki sammála þessari túlkun þar sem ný stjórnarskrá hafi tekið gildi 6. apríl 2017 og því sé rétt að byrja að telja árin átta frá þeirri dagsetningu.

Niðurstaða stjórnlagadómstólsins felur í sér að Prayuth gæti setið í embætti til aprílmánaðar 2025, að því gefnu að hann verði endurkjörinn, en þingkosningar eiga að fara fram í landinu í síðasta lagi í maí 2023.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×