Fótbolti

Eigendur PSG sagðir ætla að kaupa Espanyol til að skaða Barcelona

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sjeik Tamim bin Hamad Al Thani, emírinn af Katar, er de facto eigandi QSI og þar af leiðandi PSG einnig.
Sjeik Tamim bin Hamad Al Thani, emírinn af Katar, er de facto eigandi QSI og þar af leiðandi PSG einnig. Marcio Machado/Eurasia Sport Images/Getty Images

Tamim bin Hamad Al Thani, emírinn af Katar, er sagður hafa fyrirskipað Nasser Al-Khelaifi, forseta Paris Saint-Germain, að festa kaup á spænska fótboltaliðinu Espanyol. Með þessu ætli Katarar að gera Barcelona skráveifu en köldu hefur andað á milli PSG og Barca síðustu misseri.

Spænski miðillinn Sport greinir frá tíðindunum. Franska stórveldið PSG er í eigu Qatar Sport Investments (QSI), sem er fyrirtæki stofnað af katarska ríkinu til að fjárfesta í íþróttum og er fjármagnað af opinberum fjárfestingarsjóði Katar.

Al-Khelaifi er stjórnarformaður QSI auk þess að vera forseti PSG. QSI er sagt skoða möguleikann á að fjárfesta í fleiri knattspyrnufélögum til að byggja upp félagsliðanet, líkt og City Football Group, sem fjármagnað af opinberum fjárfestingasjóði Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Enska félagið Manchester City í eigu þess eignarhaldsfélags, á meðal fjölda annarra félaga.

Espanyol hafi hins vegar sérstaklega orðið fyrir valinu sem lið til að kaupa vegna rígs sem hefur myndast milli PSG og Barcelona, en Espanyol er staðsett í Barcelona-borg. Katararnir sjá því fyrir sér að skaða Barcelona og búa til lið sem muni skyggja á liðið sem hefur verið það stærsta í borginni frá stofnun þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×