Í nýjasta þætti af raunveruleikaþáttunum The Kardashians kom fram að Khloé hefði hafnað bónorði frá Tristan. Hún sagðist ekki hafa getað sagt já við bónorðinu, þar sem hún vilji geta borið trúlofunarhringinn með stolti en ekki skömm.
Þetta bónorð átti sér stað í desember árið 2019 eftir að mikið hafði gengið á í sambandinu. Khloé og Tristan eignuðust dótturina True árið 2018. Nokkrum dögum fyrir fæðinguna hafði komið í ljós að Tristan hafði haldið framhjá Khloé á meðan hún var ólétt.
Náðu aftur saman eftir framhjáhaldið
Þeim tókst þó að vinna úr framhjáhaldinu og náðu þau aftur saman. Khloé virðist þó ekki hafa verið tilbúin til þess að trúlofast honum vegna alls sem gengið hefði á.
Nú hefur tímaritið People greint frá því að Khloé og Tristan hafi svo trúlofað sig í laumi í febrúar árið 2021, eða rúmu ári eftir að Khloé hafnaði fyrsta bónorðinu.
Eins og sjá mátti í fyrstu þáttaröð af The Kardashians voru Khloé og Tristan að vinna úr sínum málum og virtist sambandið ganga vel. Ákváðu þau að reyna að eignast annað barn saman með aðstoð staðgöngumóður.
Sleit trúlofuninni eftir enn eitt framhjáhaldið
Nokkrum dögum eftir að þau komust að því að þau ættu von á barni, komst Khloé að því að Tristan einnig ætti von á barni með annarri konu. Hann hafði haldið framhjá Khloé fljótlega eftir að þau trúlofuðust.
Hjákona Tristans fæddi dreng í desember árið 2021. Þegar faðernispróf staðfesti að Tristan væri í raun faðirinn virðist Khloé hafa slitið leynilegu trúlofuninni.
Khloé og Tristan eru ekki saman í dag. Þau eignuðust þó son saman í júlí á þessu ári með aðstoð staðgöngumóður.