Innlent

Tómas vísar ásökunum Önnu Dóru á bug og segir öllu á haus snúið

Jakob Bjarnar skrifar
Anna Dóra sagði af sér sem forseti FÍ og sakaði Tómas um að hafa beitt sér af hörku fyrir því að Helgi Jóhannesson lögfræðingur fengi að koma aftur til starfa hjá félaginu. Tómas segir Önnu Dóru snúa staðreyndum á hvolf.
Anna Dóra sagði af sér sem forseti FÍ og sakaði Tómas um að hafa beitt sér af hörku fyrir því að Helgi Jóhannesson lögfræðingur fengi að koma aftur til starfa hjá félaginu. Tómas segir Önnu Dóru snúa staðreyndum á hvolf. vísir/vilhelm

Tómas Guðbjartsson, læknir og útivistarmaður, stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann mótmælir harðlega því sem hann vill meina að séu alvarlegar ásakanir í sinn garð af hálfu fráfarandi forseta FÍ; Önnu Dóru Sæþórsdóttur.

Allt logar nú stafna á milli í FÍ en í morgun var greint frá því að Anna Dóra hafi sagt sig frá störfum sem forseti vegna óásættanlegra samskipta við stjórn félagsins. Stjórnin hefur hafnað ásökunum Önnu Dóru.

Í langri yfirlýsingu lýsti Anna Dóra meðal annars því að Tómas, góðvinur Helga Jóhannessonar, sem fór frá félaginu í kjölfar ásakana um kynferðislegt áreiti, hafi beitt sér fyrir því af hörku að Helgi fengi aftur að starfa fyrir félagið.

„Ég hef aldrei lagt til að fyrrum stjórnarmaður tæki aftur sæti í stjórn félagsins, hann aldrei óskað eftir slíku, enda nýr stjórnarmaður kosinn í hans stað á síðasta aðalfundi félagsins,“ segir Tómas nú.

Tómas, sem er staddur í Nepal í göngu, segir að Helgi hafi sent erindi til stjórnar og óskað eftir því að fá að útskýra sína hlið á skyndilegu brotthvarfi úr stjórn í nóvember 2021.

„Taldi ég á stjórnarfundi rétt að erindið fengi formlega umfjöllun stjórnar, sem forseti taldi ekki ástæðu til, en mér falið að koma á óformlegum fundi sem forseti hugðist ekki sækja.“

Tómas harmar það í hvaða farveg málið er komið í.

„Viðskilnaður forseta við stjórn og framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands er sorglegt mál, ekki síst fyrir Ferðafélag Íslands, þar sem staðreyndum er snúið á hvolf og umræðan færð frá þeim alvarlega samskiptavanda sem litað hefur starf stjórnar sl. ár.“


Tengdar fréttir

Stjórn FÍ vísar á bug ásökunum og lýsingum forsetans

Stjórn Ferðafélags Íslands lýsir yfir vonbrigðum og furðu með hvernig Anna Dóra Sæþórsdóttir, fráfarandi forseti félagsins, lýsir viðskilnaði sínum við félagið. Stjórnin vísar algjörlega á bug þeim ásökunum og lýsingum sem hún setur fram í yfirlýsingu sinni.

Helgi segir sig úr stjórn Ferðafélags Íslands

Helgi Jóhannesson, fyrrverandi yfirlögfræðingur hjá Landsvirkjun, hefur sagt sig úr stjórn Ferðafélags Íslands. Það gerði hann í morgun og var nafn hans fjarlægt af heimasíðu félagsins í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×