Innlent

„Það er allt í skrúfunni“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Brak liggur á víð og dreif um bæinn.
Brak liggur á víð og dreif um bæinn. Aðsend/Stefanía Hrund Guðmundsdóttir

„Það er allt í skrúfunni, það er bara svoleiðis,“ segir formaður aðgerðastjórnar björgunarsveita á Austurlandi. Veðrið sé mjög slæmt á Austfjörðum og spár virðast ætla að ganga eftir.

Sveinn Halldór Oddsson Zoëga, formaður aðgerðastjórnar björgunarsveita á Austurlandi, segir að veðrið hafi verið mjög slæmt á Austfjörðum síðan í hádeginu. Rauð viðvörun tók gildi klukkan 12.

„Það er mikið af fokverkefnum, sérstaklega á Reyðarfirði, töluvert á Eskifirði og talsvert á Seyðisfirði. Þannig að það eru einhver fokverkefni í öllum byggðarkjörnum á Austfjörðunum,“ segir Sveinn Halldór.

Lögreglan á Austurlandi greinir einnig frá því að talsverðar skemmdir hafi orðið á húsum auk þess sem rúður í bílum hafi brotnað. Brak fýkur víðsvegar um bæinn og eru íbúar beðnir um að halda sig innandyra.

Hann segir að veðrið hafi verið verst á Reyðarfirði en slæmt hafi verið á Seyðisfirði í morgun. Vindurinn hefur meðal annars rifið tré upp með rótum.

„Það er foktjón og bátar og alls kyns. Svo höfum við verið að reyna að koma fólki af Möðrudalsöræfum líka, þannig að það eru verkefni í gangi þar,“ segir Sveinn Halldór.

Þá hefur einnig verið rafmagnslaust á Norður- og Austurlandi en rafmagn er nú komið á að nýju. 

Sveinn Halldór telur að veðrið gangi niður um og eftir kvöldmatarleyti en rauð viðvörun er í gildi á Austfjörðum til klukkan 21 í kvöld.

Fylgst er með nýjustu vendingum í veðri í vaktinni á Vísi.


Tengdar fréttir

Erfitt að skrúfa fyrir At­lants­hafið

Sjór gengur yfir götur á Eyrinni á Akureyri og flætt hefur inn í hús. Varðstjóri hjá slökkviliði segir að sjórinn nái upp að hnjám, og erfitt sé að eiga við Atlantshafið.

„Veður­spáin lítur ekki vel út“

Rauð viðvörun vegna veðurs hefur nú tekið gildi á Austfjörðum. Gert er ráð fyrir ofsaveðri með vindhviðum allt að 45 metrum á sekúndu. Hættustig almannavarna hefur verið virkjað og björgunarsveitir fyrir austan eru í viðbragðsstöðu. Almannavarnir hafa biðlað til almennings um að hjálpa þeim að koma skilaboðum um hið slæma veður til ferðamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×