Erlent

Verið að opna Westminster Abbey fyrir hinum 2.000 sem sækja útförina

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Almenningur og þjóðarleiðtogar hafa vottað Elísabetu virðingu sína síðustu daga.
Almenningur og þjóðarleiðtogar hafa vottað Elísabetu virðingu sína síðustu daga. AP/Yui Mok

Röðinni í Westminster Hall var lokað í gærkvöldi en talið er að um 300.000 manns hafi beðið allt að 17 tíma eftir að votta Elísabetu II Bretadrottningu virðingu sína.

Útför Elísabetar fer fram í dag. 

Í þessum töluðu orðum er verið að opna Westminster Abbey fyrir þeim 2.000 manns sem verða viðstaddir útförina en þeirra á meðal verður kóngafólk og þjóðarleiðtogar hvaðanæva að úr heiminum. 

Klukkan 9.30 að íslenskum tíma verður kista drottningarinnar flutt frá Westminster Hall og í Westminster Abbey á vagni, sem verður dreginn af 142 sjóliðum. Karl Bretakonungur og aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar munu ganga á eftir kistunni.

Athöfnin sjálf hefst klukkan 10 og verður um klukkustund að lengd. 

Í kjölfarið verður kistan flutt til Windsor, þangað sem hún mun koma um klukkan 14 og klukkan 15 verður önnur athöfn haldin þar, fyrir um 800 gesti. 

Klukkan 18.30 verður drottningin svo lögð til hinstu hvílu í minningarkapellu föður síns, Georgs VI, við hlið eiginmanns síns Filippusar. Hann hefur hvílt í hvelfingu kapellunnar en verður fluttur til eiginkonu sinnar í dag.

Sýnt verður frá viðburðum dagsins í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×