Real Madrid er enn með fullt hús stiga í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir góðan 1-2 útisigur gegn nágrönnum sínum í Atlético Madrid.
Það var Rodrygo sem kom gestunum í forystu með marki á 18. mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Aurelien Tchouameni áður en Federico Valverde sá til þess að Real Madrid fór með 0-2 forystu inn í hálfleikinn með marki tíu mínútum fyrir hlé.
Þannig var staðan lengst af í síðari hálfleik. Varamaðurinn Mario Hermoso minnkaði þó muninn á þegar um sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Það var þó ekki það eina sem Hermoso gerði eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 72. mínútu. Eftir að hafa verið inni á vellinum í rétt rúmar tíu mínútur skoraði hann þetta mark, nældi sér svo í gult spjald þremur mínútum síðar og endaði leikinn á því að næla sér í annað gult spjald og þar með rautt í upphafi uppbótartímans.
Heimamenn léku því seinustu mínúturnar manni færri og gestirnir í Real Madrid tryggðu sér góðan 1-2 sigur.
Real Madrid trónir því enn á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar með 18 stig af 18 mögulegum í fyrstu sex umferðurm deildarinnar. Atlético Madrid situr hins vegar í sjöunda sæti með tíu stig.