Innlent

Hættu­stig á landa­mærum vegna yfir­á­lags

Bjarki Sigurðsson skrifar
Viðbúnaðarstigið hefur verið hækkað til að tryggja örugga móttöku á fólki sem sótt hefur um alþjóðlega vernd.
Viðbúnaðarstigið hefur verið hækkað til að tryggja örugga móttöku á fólki sem sótt hefur um alþjóðlega vernd. Vísir/Vilhelm

Embætti ríkislögreglustjóra hefur hækkað viðbúnaðarstig á landamærunum á hættustig vegna yfirálags til þess að tryggja örugga móttöku á fólki sem sótt hefur um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Embættið telur að umsækjendum um alþjóðlega vernd muni fjölga hlutfallslega meira á síðustu mánuðum ársins og er hækkun á viðbúnaðarstigi liður í því að bregðast við þessari stöðu.

Síða innrás Rússa í Úkraínu hófst þann 24. febrúar síðastliðinn hafa 1.646 einstaklingar með tengsl við Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi, næst flestir eða 537 talsins eru frá Venesúela. Þá hafa 119 einstaklingar með tengsl við Palestínu sótt um vernd.

„Mikið viðvarandi og aukið álag á þeim viðbragðsaðilum sem koma að móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd kallar nú á aukna aðstoð og styrkingu móttökukerfisins,“ segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

Búsetuúrræði sem nýtt eru sem skammtímaúrræði fyrir fólk sem sækir um alþjóðlega vernd eru að nálgast fulla nýtingu og eru langtímaúrræði sem rekin eru af Fjölmenningarsetri og sveitarfélögum nánast fullnýtt.

„Með því að virkja viðbragðsáætlun vegna álags á landamærum aftur á hættustig verður lagður aukinn þungi í upplýsingaöflun, greiningu og jafnframt miðlun á upplýsingum til umsækjenda um alþjóðlega vernd, milli viðbragðsaðila og til almennings. Tryggt verður að hægt sé að kalla alla viðbragðsaðila að borðinu með skjótum hætti komi til þess að opna þurfi fjöldahjálparstöð ef öll önnur úrræði eru fullnýtt og tryggja þannig umsækjendum um alþjóðlega vernda tímabundið öruggt húsaskjól,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×