Erlent

Ung­verja­land geti ekki talist lýð­ræðis­ríki

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Orban hefur lengi haldið því fram að Evrópusambandið hafi horn í síðu hans.
Orban hefur lengi haldið því fram að Evrópusambandið hafi horn í síðu hans. Getty/Gruber

Evrópuþingið segir að Ungverjaland geti ekki talist fullkomið lýðræðisríki. Stjórnarhættir falli ekki að grundvallarhugmyndum um lýðræði og réttarríki. Þingfulltrúar greiddu atkvæði gegn ríkisstjórn Viktors Orban forsætisráðherra landsins fyrr í dag.

81 prósent þingfulltrúa Evrópuþings greiddu atkvæði með ályktuninni, sem hefur aðeins táknrænt gildi.  Í ályktuninni kom meðal annars fram að ríkisstjórnin í Ungverjalandi mætti líkja við einræði, ef litið er til grundvallarhugmynda um lýðræði og mannréttindi.

Ungverjaland stendur í ströngu við að sannfæra Evrópusambandið um margra milljarða fjárstyrk vegna kórónuveirufaraldursins. Þá er einnig talið að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni leggja fram tillögu um að minnka fyrirhugaðan fjárstyrk vegna uppbyggingu innviða og efnahags um 70 prósent.

Ríkið fær frest fram í nóvember til að leggja fram frumvarp, sem á að sporna gegn spillingu í landinu. Nokkrir þingmenn Evrópuþings hafa lýst yfir áhyggjum af því að Evrópusambandið muni gera of vægar kröfur til ríkisstjórnar Ungverjalands, að því segir í frétt Guardian.

Orban hefur verið forsætisráðherra í Ungverjalandi síðan árið 2010. Hann er sá leiðtogi í Evrópu sem lengst hefur setið á valdastóli samfleytt, utan einræðisherranna í Hvíta-Rússlandi og Rússlandi. Fyrr á árinu sagði náinn ráðgjafi Orbans upp eftir umdeilda ræðu sem forsætisráðherrann hélt, en ráðgjafinn sagði ræðuna hafa verið nasíska. Forsætisráðherrann hefur lengi haldið því fram að Evrópusambandið hafi horn í síðu hans.


Tengdar fréttir

Náinn ráðgjafi Orban segir upp vegna nasískrar ræðu

Náinn ráðgjafi Viktors Orban forsætisráðherra Ungverjalands og vinkona hans til áratuga hefur sagt upp störfum eftir umdeilda ræðu sem Orban hélt í Rúmeníu á dögunum. Zsuzsa Hegedus segir að ræðan hafi verið nasísk og því hafi henni ekki verið sætt áfram í störfum sínum fyrir forsætisráðherrann.

Or­ban gagn­rýndi Selenskí í sigur­ræðu sinni

Viktor Orban og Fidesz-flokkur hans unnu öruggan sigur í þingkosningunum í Ungverjalandi sem fram fóru í gær. Það er því ljóst að hann mun gegna stöðu forsætisráðherra í landinu, fjórða kjörtímabilið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×