Innlent

Minningar­at­höfn um Elísa­betu í Hall­gríms­­kirkju á sunnu­dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Athöfnin mun fara fram á ensku.
Athöfnin mun fara fram á ensku. Vísir/Vilhelm

Minningarathöfn um Elísabetu II Bretlandsdrottningu, sem lést í síðustu viku, verður haldin næstkomandi sunnudagskvöld í Hallgrímskirkju. 

Það eru Biskupsstofa, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og Hallgrímskirkja sem standa fyrir athöfninni, sem fer fram klukkan átta að kvöldi sunnudagsins 18. september, í Hallgrímskirkju.

Í tilkynningu um athöfnina segir að sérstök tengsl séu á milli kirkjunnar og Ensku biskupakirkjunnar. 

„Í Hallgrímskirkju hafa enskir jólasöngvar verið sungnir ár hvert síðan skömmu eftir að kórkjallari kirkjunnar var vígður. Í kirkjunni hafa anglíkanskar messur verið haldnar af og til með stuttum hléum, en samfellt frá árinu 2001 einu sinni í mánuði,“ segir þá í tilkynningunni.

Uppáhalds sálmar Elísabetar

Björn Steinar Sólbergsson, organisti Hallgrímskirkju, mun leika á orgel og söngfólk úr Kór Hallgrímskirkju mun syngja undir stjórn Steinars Loga Helgasonar.

Þrír prestar koma til með að þjóna við athöfnina, þau sr. Bjarni Þór Bjarnason, sr. Helga Soffía Konráðsdóttir og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir. Fólki mun bjóðast að tendra ljós inni í kirkjunni, til minningar um drottninguna.

Athöfnin fer fram á ensku, en sálmarnir sem sungnir verða eiga það sammerkt að hafa verið uppáhalds sálmar Elísabetar drottningar. Sendiherra Bretlands á Íslandi, Bryony Mathew, mun sækja athöfnina. 

„Allir eru hjartanlega velkomnir í Hallgrímskirkju þetta sunnudagskvöld,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.


Tengdar fréttir

Þriggja kílómetra löng röð eftir að sjá Bretadrottningu

Gríðarleg röð hefur myndast í Lundúnum af fólki sem bíður þess að geta séð kistu Elísabetar annarrar Bretadrottningar og vottað henni virðingu sína. Kista drottningarinnar var í gær flutt frá Buckingham höll yfir í Westminster Hall, þar sem hún mun liggja í fjóra daga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×