Körfubolti

Sektaður um einn og hálfan milljarð fyrir kvenhatur og rasisma

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sarver má ekki taka þátt í starfsemi Phoenix-liðanna Suns og Mercury næstu tólf mánuðina. Þá er hann tíu milljónum dollara fátækari.
Sarver má ekki taka þátt í starfsemi Phoenix-liðanna Suns og Mercury næstu tólf mánuðina. Þá er hann tíu milljónum dollara fátækari. Harry How/Getty Images

Robert Sarver, eigandi Phoenix Suns í NBA-deildinni í körfubolta, hefur verið dæmdur í ársbann af deildinni og sektaður um himinháa fjárhæð eftir rannsókn á meintu kvenhatri og rasisma.

Rannsókn NBA leiddi í ljós að Sarver hefði „sýnt af sér háttsemi sem brýtur greinilega gegn almennum vinnustaðastöðlum“. Í rannsókninni fundust sönnunargögn fyrir „rasískum talsmáta, mismunum gegn kvenkyns starfsfólki og kynferðistengd orðræða og framkoma“.

Einnig er Sarver sagður hafa sýnt eineltistilburði á vinnustað.

Rannsóknin innhélt viðtöl við 320 manns og þá voru 80 þúsund skjöl og myndbönd til skoðunar. Rannsóknin hófst eftir grein ESPN um málið í nóvember í fyrra.

NBA sektaði Sarver um 10 milljónir bandaríkjadala, tæplega einn og hálfan milljarð króna, sem er það mesta sem deildin hefur heimild til að sekta eigendur um samkvæmt reglum hennar. Þrátt fyrir það segir í skýrslunni að ekki hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að framherði Sarver hafi stafað af kynþátta- eða kynbundinni andúð,

Refsing Sarver er vægari en sú gegn Donald Sterling, þáverandi eiganda Los Angeles Clippers, árið 2014. Hann fékk þá lífstíðarbann og var neyddur til að selja félagið eftir að upptaka af honum að tala með rasískum hætti í einkasamtali komst í dreifingu.

Sarver á einnig Phoenix Mercury í WNBA-deildinni og má ekki fara á leiki liðanna tveggja næstu tólf mánuðina. Hann má ekki heldur taka neinn þátt í starfsemi félaganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×