Erlent

Áhorf á Krúnuna eykst um 800 prósent

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Imelda Staunton sem Elísabet Bretadrottning í The Crown.
Imelda Staunton sem Elísabet Bretadrottning í The Crown. Mynd/Netflix

Áhorf á Netflix þættina Krúnan, eða The Crown, hefur aukist um 800 prósent frá því að Elísabet II Bretadrottning féll frá.

Umfjöllunarefni þáttanna er saga bresku konungsfjölskyldunnar, frá andláti föður Elísabetar, Georgs VI, og fram til dagsins í dag. Framleiðslu fimmtu og síðustu þáttaraðarinnar hefur verið frestað í virðingarskyni við konungsfjölskylduna.

Kista Elísabetar verður flutt frá St. Giles dómkirkjunni í Edinborg síðdegis til Lundúna. Dóttir Elísabetar, Anna prinsessa, mun fylgja kistunni. Bróðir Önnu, Karl III Bretakonungur, mun taka á móti kistunni í Buckingham höll. Hann dvaldi í Edinborg í nótt en mun heimsækja Norður-Írland fyrri part dags til að vera viðstaddur minningarathöfn um móður sína.

Á morgun verður kista drottningarinnar flutt í Westminster Hall, þar sem almenningur mun geta vottað virðingu sína í fjóra daga.

Bretar hafa verið varaðir við því að örtröð muni myndast í öllum almenningssamgöngum á næstu dögum, þar sem gert er ráð fyrir því að hundruð þúsunda muni ferðast til Lúndúna í aðdraganda útfarar Elísabetar. Þá hefur fólk verið varað við því að þurfa að bíða í allt að 12 klukkustundir í röð við Westminster Hall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×