Erlent

Fimm fangelsaðir fyrir barnabækur með uppreisnaráróðri

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bókin er sögð fjalla um Hong Kong og kínversk stjórnvöld.
Bókin er sögð fjalla um Hong Kong og kínversk stjórnvöld. Getty/Anthony Kwan

Fimm talmeinafræðingar í Hong Kong hafa verið dæmdir í nítján mánaða fangelsi eftir að hafa verið sakfelldir fyrir að hafa gefið út barnabækur sem innihalda „uppreisnaráróður.“

Bókin fjallar um kindahjörð sem gerir allt í sínu valdi til að halda úlfi frá þorpinu sínu. Yfirvöld í Hong Kong litu svo á að þarna væri verið að vísa til Hong Kong og stjórnvalda í Peking. Höfundarnir neituðu því alfarið en dómari mat það svo að bókin væri tilraun til heilaþvottar.

Dómurinn bætist við fjölda annarra svipaðra dóma þar sem stjórnvöld í Hong Kong hafa undanfarin tvö ár sótt hart að mögulegum stjórnarandstæðingum. Sú aðför er byggð á öryggislögum sem stjórnvöld í Kína kynntu fyrir Hong Kong og takmarka verulega málfrelsi íbúa í héraðinu. 

Tvær barnabókanna sem fimmmenningarnir hafa gefið út.getty/Anthony Kwan

Yfirvöld í Peking halda því fram að lögin hafi verið nauðsynleg til að tryggja stöðugleika í héraðinu en gagnrýnendur segja þau til þess gerð að halda aftur af stjórnarandstæðingum og skerða sjálfstæði Hong Kong. Héraðið er eins og vel er þekkt að nafninu til sjálfstætt frá Kína, samkvæmt hinni svokölluðu „eitt land, tvö kerfi“ reglu. Sú regla hefur þó ekki verið höfð í hávegum undanfarin tvö ár. 

Talmeinafræðingarnir fimm, Lai Man-ling, Melody Yeung, Sidney Ng, Samuel Chan og Fong Tsz-ho, hafa þegar varið heilu ári í gæsluvarðhaldi. Einn lögmanna þeirra sagði við dómsuppsögu að hann teldi líklegt að þau losni úr fangelsi innan mánaðar vegna gæsluvarðhaldsdvalarinnar. 

Fimmmenningarnir eru á aldrinum 25 til 28 ára gömul og hafa undanfarin ár gefið út barnabækur á rafrænu formi. Þrátt fyrir áðurnefnd öryggislög voru þau ekki sakfelld fyrir brot á þeim heldur brot á undirróðurslöggjöf sem má rekja aftur til þess tíma sem Bretar fóru með stjórn í héraðinu og er sjaldan notuð af saksóknurum. 


Tengdar fréttir

Carri­e Lam hefur ekki á­huga á að sitja á­fram

Carrie Lam, leiðtogi heimastjórnar Hong Kong, hyggst ekki sækjast eftir endurkjöri þegar skipunartímabil hennar er á enda. Stjórnartíð hennar hefur verið umdeild og einkennst af því að mjög hefur gengið á réttindi borgaranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×