Umfjöllun og viðtöl: Fram-Selfoss 33-26 | Draumabyrjun í nýja dalnum Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 8. september 2022 20:35 Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði átta mörk í sigri Fram á Selfossi. Vísir/Hulda Margrét Fram vann Selfoss, 33-26, í upphafsleik Olís-deildar karla tímabilið 2022-23 í kvöld. Þetta var jafnframt fyrsti keppnisleikur Fram á nýjum og glæsilegum heimavelli félagsins í Úlfarsárdal. Sigur Fram var öruggur og mjög svo verðskuldaður. Frammarar spiluðu af gríðarlegum krafti í fyrri hálfleik þar sem þeir keyrðu í bakið á Selfyssingum við hvert tækifæri. Átta af sautján mörkum Fram í fyrri hálfleik komu eftir hraðaupphlaup. Gestirnir voru aftur á móti mjög hægir, bæði fram og aftur. Þá gerðu þeir sig seka um alltof mörg mistök í sókninni og skotnýtingin var aðeins 53 prósent. Ívar Logi Styrmisson skoraði átta mörk í sínum fyrsta leik fyrir Fram, jafn mörg og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson. Aron Máni Daðason fékk tækifæri í byrjunarliðinu og nýtti það vel. Hann varði fimmtán skot, eða 39 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Guðmundur Hólmar Helgason og Ísak Gústafsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Selfoss. Hvorugur þeirra spilaði þó vel. Markvarslan hjá Selfossi var vel viðunandi. Jón Þórarinn Þorsteinsson byrjaði í markinu og varði sex skot (35 prósent) og Vilius Rasimas varði tíu skot eftir að hann kom inn á (32 prósent). Eftir jafnar upphafsmínútur tók Fram völdin, skoraði fjögur mörk í röð og náði forystunni, 11-7. Frammarar spiluðu á miklum hraða og Einar Jónsson, þjálfari liðsins, nýtti breiddina í liðinu vel. Heimamenn leiddu með sex mörkum í hálfleik, 17-11. Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega og minnkaði muninn í þrjú mörk, 18-15. En það var skammgóður vermir. Sóknarleikur Fram var virkilega vel útfærður og náðu aftur heljartaki á leiknum. Um miðjan seinni hálfleik munaði átta mörkum á liðunum, 25-17. Selfyssingar reyndu hvað þeir gátu, tóku meðal annars Þorstein Gauta nánast úr umferð, en það dugði skammt. Frammarar voru með of mikla forystu og hleyptu Sunnlendingum aldrei nærri sér. Á endanum skildu sjö mörk liðin að, 33-26. Fram var með allt á hreinu í leiknum í kvöld, leikáætlun liðsins var afar skilvirk og það virðist einfaldlega vera komið mun lengra en Selfoss á þessum tíma. Einar: Eigum helling inni Einar Jónsson og strákarnir hans hófu tímabilið á sigri.vísir/hulda margrét Einar Jónsson, þjálfari Fram, var ánægður eftir fyrsta keppnisleik félagsins á nýja heimavellinum í Úlfarsárdal. „Þetta voru tvö stig, frammistaðan lengst af hrikalega góð og ég var ánægður með okkur í dag. Við fylgdum leikáætluninni nánast allan leikinn og vorum flottir,“ sagði Einar eftir leik. Fram keyrði stíft í bakið á Selfossi sem skilaði mörgum mörkum úr hraðaupphlaupum. Þessi leikstíll er kominn til að vera hjá Fram segir Einar. „Við erum búnir að djöflast í þessu á undirbúningstímabilinu með misjöfnum árangri. Þetta gekk mjög vel í fyrri hálfleik en svo breyttist takturinn í leiknum í seinni hálfleik. Við vorum svolítið oft manni færri. Ég hefði viljað skora fleiri mörk. Við klikkuðum á upplögðum færum í upphafi seinni hálfleiks. Við fengum dauðafæri á eftir dauðafæri og hefðum getað slátrað leiknum. En við vorum með leikinn í okkar höndum og sigurinn var öruggur,“ sagði Einar. „En við eigum helling inni þrátt fyrir að mér hafi fundist við yfirspila Selfoss á köflum í dag.“ Fram er með breiðan leikmannahóp og Einar dreifði álaginu vel í leiknum í kvöld. „Við erum með fullt af mönnum og svo eru líka menn utan hóps sem leggja örugglega eitthvað í púkkið í vetur. Við erum í þokkalegu standi en eigum eftir að komast í betra stand. Við erum með fullt af mönnum sem geta hlaupið og spilað vörn og sókn,“ sagði Einar að endingu. Þórir: Vörnin stóð ekki jafn vel og hún hefur gert í síðustu leikjum Þórir Ólafsson (lengst til vinstri) er nýr þjálfari Selfoss.vísir/bára Þórir Ólafsson stýrði Selfossi í fyrsta sinn þegar liðið tapaði fyrir Fram í kvöld. Honum fannst vörn Sunnlendinga ekki nógu öflug. „Vörnin stóð ekki jafn vel og hún hefur gert í síðustu leikjum. Þar fór leikurinn. Sóknin var fín og við sköpuðum okkur ágætis færi þótt það hafi verið nokkur um klikk úr opnum færum,“ sagði Þórir. „Svo töpuðum við boltanum 13-14 sinnum sem er vont og við fengum á okkur mörk úr hraðaupphlaupum.“ Þórir segir að það hafi ekki komið sér á óvart hversu hraðan bolta Frammarar spiluðu. Þeir skoruðu ellefu mörk eftir hraðaupphlaup en Selfyssingar aðeins fjögur. „Flest lið eru farin að keyra og reyna að refsa þegar andstæðingarnar gera mistök og við ætlum að gera það líka,“ sagði Þórir. Unglingalandsliðsmaðurinn Jón Þórarinn Þorsteinsson hóf leikinn í markinu hjá Selfossi og stóð sig með prýði. „Hann spilaði mjög vel í undirbúningsleikjunum og Vilius [Rasimas] hafði glímt við meiðsli þannig ég vildi gefa honum tækifæri og byrja leikinn. Svo skipti ég honum út af og Vilius kom inn á og kom með sínar vörslur,“ sagði Þórir að lokum. Olís-deild karla Fram UMF Selfoss
Fram vann Selfoss, 33-26, í upphafsleik Olís-deildar karla tímabilið 2022-23 í kvöld. Þetta var jafnframt fyrsti keppnisleikur Fram á nýjum og glæsilegum heimavelli félagsins í Úlfarsárdal. Sigur Fram var öruggur og mjög svo verðskuldaður. Frammarar spiluðu af gríðarlegum krafti í fyrri hálfleik þar sem þeir keyrðu í bakið á Selfyssingum við hvert tækifæri. Átta af sautján mörkum Fram í fyrri hálfleik komu eftir hraðaupphlaup. Gestirnir voru aftur á móti mjög hægir, bæði fram og aftur. Þá gerðu þeir sig seka um alltof mörg mistök í sókninni og skotnýtingin var aðeins 53 prósent. Ívar Logi Styrmisson skoraði átta mörk í sínum fyrsta leik fyrir Fram, jafn mörg og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson. Aron Máni Daðason fékk tækifæri í byrjunarliðinu og nýtti það vel. Hann varði fimmtán skot, eða 39 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Guðmundur Hólmar Helgason og Ísak Gústafsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Selfoss. Hvorugur þeirra spilaði þó vel. Markvarslan hjá Selfossi var vel viðunandi. Jón Þórarinn Þorsteinsson byrjaði í markinu og varði sex skot (35 prósent) og Vilius Rasimas varði tíu skot eftir að hann kom inn á (32 prósent). Eftir jafnar upphafsmínútur tók Fram völdin, skoraði fjögur mörk í röð og náði forystunni, 11-7. Frammarar spiluðu á miklum hraða og Einar Jónsson, þjálfari liðsins, nýtti breiddina í liðinu vel. Heimamenn leiddu með sex mörkum í hálfleik, 17-11. Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega og minnkaði muninn í þrjú mörk, 18-15. En það var skammgóður vermir. Sóknarleikur Fram var virkilega vel útfærður og náðu aftur heljartaki á leiknum. Um miðjan seinni hálfleik munaði átta mörkum á liðunum, 25-17. Selfyssingar reyndu hvað þeir gátu, tóku meðal annars Þorstein Gauta nánast úr umferð, en það dugði skammt. Frammarar voru með of mikla forystu og hleyptu Sunnlendingum aldrei nærri sér. Á endanum skildu sjö mörk liðin að, 33-26. Fram var með allt á hreinu í leiknum í kvöld, leikáætlun liðsins var afar skilvirk og það virðist einfaldlega vera komið mun lengra en Selfoss á þessum tíma. Einar: Eigum helling inni Einar Jónsson og strákarnir hans hófu tímabilið á sigri.vísir/hulda margrét Einar Jónsson, þjálfari Fram, var ánægður eftir fyrsta keppnisleik félagsins á nýja heimavellinum í Úlfarsárdal. „Þetta voru tvö stig, frammistaðan lengst af hrikalega góð og ég var ánægður með okkur í dag. Við fylgdum leikáætluninni nánast allan leikinn og vorum flottir,“ sagði Einar eftir leik. Fram keyrði stíft í bakið á Selfossi sem skilaði mörgum mörkum úr hraðaupphlaupum. Þessi leikstíll er kominn til að vera hjá Fram segir Einar. „Við erum búnir að djöflast í þessu á undirbúningstímabilinu með misjöfnum árangri. Þetta gekk mjög vel í fyrri hálfleik en svo breyttist takturinn í leiknum í seinni hálfleik. Við vorum svolítið oft manni færri. Ég hefði viljað skora fleiri mörk. Við klikkuðum á upplögðum færum í upphafi seinni hálfleiks. Við fengum dauðafæri á eftir dauðafæri og hefðum getað slátrað leiknum. En við vorum með leikinn í okkar höndum og sigurinn var öruggur,“ sagði Einar. „En við eigum helling inni þrátt fyrir að mér hafi fundist við yfirspila Selfoss á köflum í dag.“ Fram er með breiðan leikmannahóp og Einar dreifði álaginu vel í leiknum í kvöld. „Við erum með fullt af mönnum og svo eru líka menn utan hóps sem leggja örugglega eitthvað í púkkið í vetur. Við erum í þokkalegu standi en eigum eftir að komast í betra stand. Við erum með fullt af mönnum sem geta hlaupið og spilað vörn og sókn,“ sagði Einar að endingu. Þórir: Vörnin stóð ekki jafn vel og hún hefur gert í síðustu leikjum Þórir Ólafsson (lengst til vinstri) er nýr þjálfari Selfoss.vísir/bára Þórir Ólafsson stýrði Selfossi í fyrsta sinn þegar liðið tapaði fyrir Fram í kvöld. Honum fannst vörn Sunnlendinga ekki nógu öflug. „Vörnin stóð ekki jafn vel og hún hefur gert í síðustu leikjum. Þar fór leikurinn. Sóknin var fín og við sköpuðum okkur ágætis færi þótt það hafi verið nokkur um klikk úr opnum færum,“ sagði Þórir. „Svo töpuðum við boltanum 13-14 sinnum sem er vont og við fengum á okkur mörk úr hraðaupphlaupum.“ Þórir segir að það hafi ekki komið sér á óvart hversu hraðan bolta Frammarar spiluðu. Þeir skoruðu ellefu mörk eftir hraðaupphlaup en Selfyssingar aðeins fjögur. „Flest lið eru farin að keyra og reyna að refsa þegar andstæðingarnar gera mistök og við ætlum að gera það líka,“ sagði Þórir. Unglingalandsliðsmaðurinn Jón Þórarinn Þorsteinsson hóf leikinn í markinu hjá Selfossi og stóð sig með prýði. „Hann spilaði mjög vel í undirbúningsleikjunum og Vilius [Rasimas] hafði glímt við meiðsli þannig ég vildi gefa honum tækifæri og byrja leikinn. Svo skipti ég honum út af og Vilius kom inn á og kom með sínar vörslur,“ sagði Þórir að lokum.
Pétur leitar að nýjum Bandaríkjamanni: „Fjölhæfari leikmann, einhvern sem getur leyst margar stöður“ Körfubolti
Pétur leitar að nýjum Bandaríkjamanni: „Fjölhæfari leikmann, einhvern sem getur leyst margar stöður“ Körfubolti