Félagið sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem greint var frá tíðindunum. Aðstoðarþjálfarar hans Andreas Hinkel og Max Urwantschky hafa einnig yfirgefið félagið en ekki kemur fram hver taki tímabundið við liðinu á meðan Leipzig leitar eftirmanns Tedesco.
Vonbrigði Tedesco eftir tapið í gærkvöld voru skýr, en hann hefur verið undir mikilli pressu fyrir leik gærdagsins, vegna slaks árangurs heimafyrir.
„Það er mjög erfitt að finna réttu orðin eftir svona leik. Það er erfitt að útskýra það,“ sagði Tedesco. „Þetta er lýsandi fyrir það sem við höfum gengið í gegnum síðustu vikur,“
Tedesco tók við Leipzig af Jesse Marsch í desember í fyrra en þá var sá síðarnefndi rekinn vegna slaks árangurs. Hann tók í kjölfarið við Leeds United hvar honum gengur betur.
Tedesco tók til hendinni og stýrði Leipzig til bikarmeistaratitils í vor og í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Upphaf yfirstandandi leiktíðar hefur hins vegar verið mikil vonbrigði þar sem liðið hefur aðeins unnið einn deildarleik af fyrstu fimm og tapaði 4-0 fyrir Frankfurt um liðna helgi.
1-4 tap á heimavelli fyrir Shakhtar liði sem hefur verið rúið inn að skinni vegna stríðsins í Úkraínu var svo kornið sem fyllti mælinn.
Marco Rose, fyrrum þjálfari Dortmund og Gladbach, er talinn líklegastur til að taka við liðinu af Tedesco en honum var sagt upp hjá Dortmund í maí. Það skildi þó aldrei vera að Leipzig reyni að lokka Tuchel til heimalandsins í ljósi uppsagnar hans frá Chelsea í morgun.