Í Pakistan er monsún-tímabil þessa stundina en því fylgir mikil rigning. Rigningin hefur þó aldrei verið jafn mikil og hún er nú og hafa 33 milljónir manna, fimmtán prósent íbúa landsins, orðið fyrir áhrifum hennar.
Í kjölfar rigningarinnar hafa orðið mörg flóð og eru margar borgir einfaldlega á floti. Héröðin Sindh og Balochistan hafa komið hvað verst út úr þessari rigningu en í Sindh-héraði má finna stærsta stöðuvatn landsins, Manchar-stöðuvatnið.
Manchar getur orðið allt að fimm hundruð ferkílómetrar að flatarmáli þegar mikil rigning er á svæðinu. Þórisvatn, stærsta stöðuvatn Íslands, er einungis 86 ferkílómetrar að stærð og er Manchar svipað að stærð og Mýrdalsjökull.
Til þess að koma í veg fyrir að vatn flæði yfir bakka Manchar hafa yfirvöld í Pakistan byrjað að hleypa vatni úr því. Þannig vonast þeir til þess að hægt sé að koma í veg fyrir að vatn úr stöðuvatninu flæði yfir í nærliggjandi þéttbýlisstaði en nokkrar borgir með yfir hundrað þúsund íbúa eru í nágrenni við vatnið.
Jam Khan Shoro, héraðsáveituráðherra í Singh, segir í samtali við Reuters að aðgerðir yfirvalda hafi gert lítið gagn. Vatnsmagnið sé enn það sama og það var fyrir.