Liðið fylgir því Fylkismönnum upp í Bestu-deildina, en Fylkismenn þurfa aðeins einn sigur í seinustu tveimur umferðunum til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.
HK og Fjölnir sátu í öðru og þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn í kvöld og því ljóst að sigur myndi koma HK-ingum upp um deild.
Það voru þó Fjölnismenn sem náðu forystunni í leiknum þegar Lúkas Logi Heimisson kom boltanum í netið strax á annarri mínútu leiksins áður en Atli Arnarson jafnaði metin fyrir heimamenn með marki af vítapunktinum á 18. mínútu.
Annað mark heimamanna lét svo bíða eftir sér, en Hassan Jalloh kom HK-ingum yfir þegar um tíu mínútur voru til leiksloka áður en hann var svo aftur á ferðinni þremur mínútum síðar og gulltryggði 3-1 sigur HK-inga.
HK er nú með 43 stig í öðru sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir, tíu stigum meira en Fjölnir sem situr í þriðja sæti. HK-ingar eiga enn veika von um að vinna deildarmeistaratitilinn, en þá þarf allt að ganga upp í seinustu umferðunum.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara fengust á Fótbolti.net.
Hulda Margrét, ljósmyndari Vísis, var á vellinum og fangaði stemninguna þegar sætið í deild þeirra bestu var tryggt.






