Fótbolti

„Ég var komin í gott stand á EM“

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir vann sig inn í byrjunarlið Íslands að nýju aðeins átta mánuðum eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn, og spilaði alla þrjá leikina á EM.
Sara Björk Gunnarsdóttir vann sig inn í byrjunarlið Íslands að nýju aðeins átta mánuðum eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn, og spilaði alla þrjá leikina á EM. VÍSIR/VILHELM

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði í fótbolta segist vera á góðu róli fyrir leikina við Hvíta-Rússland í dag og Holland á þriðjudag, sem gætu skilað Íslandi beint á HM í fyrsta sinn.

Sara lék sína fyrstu alvöru leiki á sjálfu Evrópumótinu í júlí, eftir að hafa eignast sitt fysta barn í nóvember. Hún hefur svo náð að spila nokkra leiki með Juventus nú í upphafi leiktíðar, bæði í ítölsku A-deildinni og í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

Aðspurð hvort að hún væri enn á uppleið í átt að sínu besta formi, eða hvort hún hefði þegar verið búin að ná þangað á EM, svaraði Sara:

„Ég var komin í gott stand á EM. Ég var ekki í slæmu standi. Mér leið vel og ég var búin að æfa vel. Ég er komin á gott ról líka núna, búin að vera að spila leiki með Juventus, svo ég er á góðu róli og líður vel.“

Klippa: Sara Björk er á góðu róli

Sara var í byrjunarliði Íslands í öllum þremur leikjunum á EM, á tólf daga tímabili, en var skipt út af í þeim öllum. Hún hefur svo leikið tvo keppnisleiki í byrjunarliði fyrir Juventus, þar af annan í níutíu mínútur, og komið inn á sem varamaður í einum leik.

Sara slær eigið landsleikjamet með hverjum landsleik sem hún spilar en leikurinn við Hvíta-Rússland í kvöld verður 143. A-landsleikur fyrirliðans, sem skorað hefur 22 mörk í þessum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×