Innherji

Fyrrverandi bankastjóri Landsbankans kemur inn í stjórn CRI

Hörður Ægisson skrifar
Halldór J. Kristjánsson og Birna Ósk Einarsdóttir koma ný inn í stjórn íslenska tæknifyrirtækisins Carbon Recycling.
Halldór J. Kristjánsson og Birna Ósk Einarsdóttir koma ný inn í stjórn íslenska tæknifyrirtækisins Carbon Recycling.

Stokkað hefur verið upp í stjórn íslenska tæknifyrirtækisins Carbon Recycling International (CRI) og þá hefur Sigurlína Ingvarsdóttir, sjálfstætt starfandi ráðgjafi og fjárfestir, tekið við sem stjórnarformaður en hún hefur setið í stjórn CRI frá því vorið 2021 þegar félagið Eyrir Invest kom inn í hluthafahóp CRI sem leiðandi fjárfestir.

Þau sem koma ný inn í stjórn CRI, sem framleiðir metanól úr koltvísýringi og vetni, eru Birna Óska Einarsdóttir, sem tók í ársbyrjun við starfi í framkvæmdastjórn hjá APM í Hollandi, dótturfélagi flutningafyrirtækisins Maersk, og Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans á árunum 1998 til 2008, en síðustu ár hefur hann starfað fyrir kanadíska fjármálafyrirtækið Prospect Financial Group.

Birna Ósk, sem hefur áður gegnt framkvæmdastjórastöðum hjá meðal annars Icelandair, Landsvirkjun og Símanum, kemur inn í stjórnina sem fulltrúi Eyris Invest – hún er stjórnarformaður í vísisjóði í rekstri fjárfestingafélagsins – en félag í eigu þess er einn stærsti hluthafinn í CRI með um níu prósenta hlut.

Þórður Magnússon, forstjóri Eyris Invest og stjórnarformaður CRI frá því snemma á síðasta ári, hefur á sama tíma hætt störfum í stjórn fyrirtækisins.

Breytingar á stjórninni, sem telur nú sex manns, koma skömmu eftir að samkomulag náðist um að Ingólfur Guðmundsson, sem hafði stýrt CRI frá árinu 2019, myndi láta af störfum sem forstjóri félagsins. Í samtali við Innherja fyrr í sumar sagði Þórður, sem þá var enn stjórnarformaður CRI, að félagið væri nú að leita að alþjóðlegum stjórnenda til að taka við keflinu.

Björk Kristjánsdóttir, fjármálastjóri CRI, hefur gegnt stöðu forstjóra frá því að Ingólfur lét af störfum síðastliðinn júní.

Á aðalfundi CRI í fyrra var samþykkt að hefja undirbúning að skráningu á markað í Noregi en stefnt var að því að sækja um 20 til 30 milljónir dala í nýtt hlutafé. Versnandi markaðsaðstæður urðu hins vegar til þess að fyrirtækið hvarf frá áformunum.

„Í ljósi efnahagsaðstæðna og hættunnar á áframhaldandi óróa á hlutabréfamörkuðum var í kjölfarið ákveðið að skráning á markað á þessum tímapunkti myndi ekki vera fýsileg,“ sagði í ársreikningi CRI sem Innherji greindi frá í byrjun sumars. Unnið er að öðrum leiðum til að styðja við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins og hefur verið gert ráð fyrir að þeirri fjármögnun ljúki síðar á árinu.

Fyrirtækið hefur síðustu tvö ár unnið að hönnun efnaverksmiðju sem verður gangsett síðar á árinu í Anyang í austurhluta Kína. Verkefnið byggir á tækni CRI og mun draga úr losun á 160.000 tonnum af koltvísýringi árlega.

Þá hefur CRI einnig unnið með orkufyrirtækinu Statkraft að sameiginlegri verkefnaþróun og fjárfestingu í nýrri verksmiðju í Finnfjord í norðurhluta Noregs. Stefnt er að því að framleiðslugeta þeirrar verksmiðju verði um 25 sinnum meiri en í fyrstu verksmiðju CRI, sem reist var í Svartsengi, eða sem nemur 100 þúsund tonnum á ári.


Tengdar fréttir

Birna Ósk í stjórn vísisjóðsins Eyris Vaxtar

Birna Ósk Einarsdóttir, sem tók í ársbyrjun við starfi í framkvæmdastjórn hjá APM í Hollandi, dótturfélagi flutningafyrirtækisins Maersk, hefur verið kjörin ný í stjórn Eyris Vaxtar sem er sex milljarða vísisjóður sem var komið á fót í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×