Juventus komst í forystu með marki Vlahovic strax á 2. mínútu en gestirnir frá Roma voru heppnir að vera ekki tveimur mörkum undir í hálfleik þegar myndbandsdómgæsla kom þeim til aðstoðar og dæmdi annað mark Juventus á 25. mínútu ógilt.
„Í hálfleik sagði ég við leikmennina að ég skammaðist mín fyrir að vera knattspyrnustjórinn þeirra,“ sagði Mourinho í viðtali við DAZN eftir leikinn.
„Þetta var ekki eitthvað taktískt atriði sem við gerðum rangt heldur bara almennt viðhorf leikmanna. Við getum ekki komið hingað og spilað við Juventus með svona lélegt viðhorf,“ bætti Mourinho við.
„Ég sagði við Foti [aðstoðarþjálfari Roma] að biðja til guðs að fyrri hálfleikurinn tapaðist bara 1-0. Það voru frábær úrslit fyrir okkur eftir frammistöðu leikmannana í fyrri hálfleik.“
Mourinho virðist hafa náð til leikmanna sinna en þeir sýndu mun betri frammistöðu í síðari hálfleik og tókst að jafna leikinn á 69. mínútu. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og Roma er nú ásamt Milan, Lazio og Torino í efstu fjórum sætunum, öll með sjö stig.