Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um álverið í Reyðarfirði en það er stærsti vinnustaður Austurlands.
„Það eru um áttahundruð manns sem vinna hjá okkur, dags daglega, beint og óbeint. Og ef við tökum svo önnur afleidd störf þá erum við með umtalsvert meira. Þannig að við erum risastór hornsteinn í atvinnulífinu á Austurlandi,“ segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls.

Íbúafjöldinn á Reyðarfirði tók kipp með komu þess. Þar var iðnfyrirtækið Launafl sérstaklega stofnað til að þjónusta álverið en hjá því starfa núna um eitthundrað manns.
„Áður en álverið kom þá var þetta að vera komið niður í um 600 manns sem bjuggu hérna. En núna eru þetta að verða 1.500 manns. Þannig að það hefur orðið gífurleg breyting. Og í rauninni ef álverið hefði ekki komið þá hefðu Austfirðir ekki verið það sem þeir eru í dag,“ segir Reyðfirðingurinn Magnús Helgason, framkvæmdastjóri Launafls.

Systurnar Aðalheiður og Harpa Vilbergsdætur starfa báðar hjá Alcoa sem og eiginmenn þeirra.
„Þegar ég var í háskóla sá ég ekki endilega fyrir mér að koma aftur heim,“ segir Harpa.
„Þannig var umræðan hjá okkur. Við vorum fyrir sunnan. Maðurinn minn var að læra. Þá var staðan þannig að við vorum ekkert endilega á leiðinni til baka,“ segir Aðalheiður.
„En síðan kemur undirritunin og hún verður bara til þess að við kaupum hús og drífum okkur austur,“ segir Aðalheiður ennfremur.

En hafa bændur áhyggjur af sambýli við álverið? Við spurðum þau á Sléttu.
„Nei, ég hef ekki áhyggjur. Ekki af þessu álveri. Það er bara mjög vel hugsað um allar mengunarvarnir og þeir gera allt sem í þeirra valdi stendur,“ segir Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sem rekur sauðfjárbú á Sléttu ásamt manni sínum, Guðjóni Má Jónssyni.

Um 350 þúsund tonn af áli fara frá álverinu með skipum út í heim á hverju ári. En í hvað er varan notuð?
Forstjórinn segir um helming fara á almennan markað sem svokallað hráál en hinn helmingurinn sé meira unnin vara og nefnir háspennulínur sem dæmi.
„Vírarnir í byggðalínunni eru úr áli. Og nýjustu línurnar, það má alveg búast við því að í þeim sé ál frá Fjarðaáli, bara sem dæmi.
Felgurnar á bílnum sem við komum á, þær eru nokkuð örugglega steyptar úr áli. Og við erum að framleiða þannig virðisaukandi vöru líka,“ segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: