Fótbolti

Hjartað stöðvar norsku stjörnuna

Sindri Sverrisson skrifar
Caroline Graham Hansen skoraði þegar Barcelona vann úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2021 en henni og norska landsliðinu gekk aftur á móti ekki vel á EM í sumar.
Caroline Graham Hansen skoraði þegar Barcelona vann úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2021 en henni og norska landsliðinu gekk aftur á móti ekki vel á EM í sumar. Getty/Maddie Meyer

Norska knattspyrnukonan Caroline Graham Hansen, leikmaður Barcelona, hefur ákveðið að taka sér hlé frá norska landsliðinu og segir ástæðuna hjartavandamál.

Hansen, sem skorað hefur 44 mörk í 98 landsleikjum, missti af hluta síðustu leiktíðar með Barcelona eftir að hafa fundið fyrir verkjum í brjósti og hröðum hjartslætti.

Hún sendi frá sér yfirlýsingu í gær til að útskýra af hverju hún yrði ekki með Noregi í komandi leikjum í undankeppni HM.

„Eftir ár með hjartavandamálum og næstum því 50 leikjum finn ég enn fyrir þreytu sem gerir að verkum að ég þarf að hlusta á líkamann,“ skrifaði Hansen á Instagram.

„Ég þarf hvíld. Ég þarf að jafna mig,“ skrifaði Hansen sem kvaðst þó vonast til að snúa aftur í landsliðið enda væri hún stoltust af því á öllum sínum ferli og yrði alltaf annt um landsliðið.

Norska landsliðið stóð engan veginn undir væntingum á EM í sumar og féll úr leik í riðlakeppninni. Í kjölfarið var skipt um landsliðsþjálfara og gerði nýi þjálfarinn, Hege Riise, nokkrar breytingar á liðinu og skipti meðal annars Maríu Þórisdóttur, miðverði Manchester United, út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×