Innlent

Notaðist við afsagaða haglabyssu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Vísir

Upplýsingar liggja ekki fyrir um það hver það var sem lét lögreglu vita af skotárásinni á Blönduósi á sunnudag en lögregla var komin á vettvang um 15 til 20 mínútum eftir að tilkynning barst.

Frá þessu greinir í Morgunblaðinu í morgun.

Þar er einnig haft eftir heimildarmönnum að árásarmaðurinn hafi notast við afsagaða haglabyssu, það er að segja haglabyssu þar sem hlaupið hefur verið sagað af.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var atburðarásin með þeim hætti að árásarmaðurinn skaut fyrst manninn á heimilinu, sem var fyrrverandi vinnuveitandi hans. Eiginkona mannsins er sögð hafa verið komin út en hafa snúið við þegar hún heyrði skothvellinn. Árásarmaðurinn hafi þá skotið hana til bana.

Sonur hjónanna, sem var á heimilinu ásamt unnustu sinni og ungu barni, er í Fréttablaðinu sagður hafa orðið vitni að því þegar móðir hans var myrt og hafa ráðist á árásarmanninn þegar sá var að hlaða byssuna. Árásarmaðurinn lést í þeim átökum.

Samkvæmt Morgunblaðinu voru endurlífgunartilraunir hafnar á föður unga mannsins um leið og viðbragðsaðilar mættu á vettvang en hann liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Morgunblaðið hefur eftir Aron Birki Óskarssyni, einn liðsmanna viðbragðshóps Rauða krossins, að íbúar á Blönduósi hafi verið þakklátir fyrir þá áfallahjálp sem þeim hefur boðist og að margir hafi nýtt sér hana, bæði einstaklingsviðtöl og hópfundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×