Kounde gekk í raðir Barcelona í síðasta mánuði fyrir um það bil 42 milljónir punda. Hann hefur hins vegar ekki enn fengið að spila með liðinu þar sem Börsungar þurfa að rétta úr fjárhagskútnum áður en þeir geta skráð hann í leikmannahópinn.
Þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu tóks Barcelona að eyða himinháum fjárhæðum í leikmenn í sumar. Liðið hefur þó verið í stökustu vandræðum með að koma þessum leikmönnum í liðið, en félagið rétt náði að skrá fjóra leikmenn í leikmannahópinn í tæka tíð fyrir fyrsta leik tímabilsins.
„Eins og staðan er núna þá vitum við ekki neitt. Við erum bara í biðstöðu,“ sagði Xavi um málið.
„Við erum bara að bíða. Kounde er frábær leiðtogi og frábær leikmaður. Vonandi sýnir hann okkur það bráðum - vonandi á morgun, ef hann má spila,“ bætti Xavi við, en Barcelona mætir Real Sociedad í spænsku úrvalsdeildinni á morgun.
„Hann er búinn að æfa vel og ég sé það á honum að honum líður vel. En við verðum að selja leikmenn svo við getum skráð hann.“
Nokkrir leikmenn Barcelona hafa verið orðaðir við brottför frá félaginu og því er ekki ólíklegt að liðið nái að koma Kounde inn í hópinn fyrir mánaðarlok. Pierre-Emerick Aubameyang hefur til að ynda verið orðaður við Chelsea og Memphis Depay hefur einnig verið orðaður við brottför.
„Félagsskiptaglugginn lokar 31. ágúst og við vitum ekki hvað mun gerast. Auba og Mamphis eru ennþá hérna þannig að við munum nota þá á morgun. En það er forgangsatriði að ná að skrá Kounde,“ sagði Xavi að lokum.