Erlent

Djamm­mynd­bönd af finnska for­sætis­ráð­herranum valda fjaðra­foki

Atli Ísleifsson skrifar
Hin 36 ára Sanna Marin tók við embætti forsætisráðherra Finnlands árið 2019.
Hin 36 ára Sanna Marin tók við embætti forsætisráðherra Finnlands árið 2019. Getty

Myndbönd sem sýna finnska forsætisráðherrann dansandi, syngjandi og að skemmta sér hafa valdið nokkru fjaðrafoki í Finnlandi eftir að þau fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum og í finnskum fjölmiðlum í gær.

Sanna Marin, sem hefur gegnt embætti forsætisráðherra landsins frá árinu 2019, segir leitt að myndböndin hafi farið í dreifingu en að ekkert ólöglegt hafi þar átt sér stað. Hún hafi einungis neytt áfengis og segist ekki vita til þess að fólk á staðnum hafi neytt ólöglegra fíkniefna.

Á myndböndunum má sjá Marin dansa með vinum sínum og syngja með þar sem finnsk tónlist er spiluð á háum styrk. Er meðal annars sungið með lögum tónlistarmannanna Petri Nygård og Antti Tuiskun.

„Mér þykir leitt að myndböndin hafi farið í opinbera dreifingu. Ég varði þessu kvöldi með vinum. Djammaði, vissulega ansi mikið, jú. Dansaði og söng,“ sagði Marin þegar hún ræddi við fjölmiðla í Kuopio í morgun.

Hún segir að vinahópurinn hafi þarna neytt áfengis og segist hún ekki vita til þess að nokkur hafi neytt ólöglegra efna.

Aðspurð um „Mjölgengið“ (f. Jauhojengi), sem minnst er á í einu myndskeiðanna, segist hún ekki þekkja til þess. Hún segir að myndböndin hafi verið tekin upp fyrir nokkrum vikum síðan. Hún segist þó ekki vilja upplýsa hvar myndböndin hafi verið tekin upp, eða þá hver kunni að hafa komið þeim í dreifingu.

Þingflokksformaður Jafnaðarmannaflokksins, Antti Lindtman, segir í samtali við finnska fjölmiðla í dag að forsætisráðherrann njóti enn ótvíræðs stuðnings þingflokksins.

Hin 36 ára Marin segir það finnsku þjóðarinnar að ákveða hvað sé æskileg hegðun forsætisráðherra landsins. Hún verji þó, líkt og aðrir á hennar aldri, tíma með vinum sínum og skemmti sér. Hún ætli sér að vera sama manneskja og hún hafi verið til þessa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×