Í gær var greint frá því að vísitala íbúðarverðs á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 1,1 prósent á milli mánaða og standi nú í 951. Sundurliðun sýnir að hækkun vísitölu íbúðaverðs fjölbýlis nemur 0,5 prósentum en 3,7 prósentum í sérbýli.
Mánuðinn áður hafði vísitalan hækkað um 2,6 prósent í fjölbýli en 0,8 prósent í sérbýli. Því er um ágætis sveiflu að ræða.
Hagfræðideild Landsbankans segir ástæðuna geta verið aðgerðir Seðlabankans sem kynntar voru í júní. Þar á meðal var veðsetningahlutfall fyrstu kaupenda lækkað og reglur við greiðslumat hertar. Fyrstu kaupendur eru líklegri til að kaupa í fjölbýli en sérbýli.
„Gera má ráð fyrir því að öll áhrif aðgerða Seðlabankans séu ekki að fullu komin fram þar sem tímatöf er í gögnum Þjóðskrár sem byggja á þeim kaupsamningum sem þinglýst var á síðustu þremur mánuðum,“ segir í skýrslu deildarinnar.