Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir fyrir um gengi liðanna í Olís-deild karla en keppni í deildinni hefst með fjórum leikjum fimmtudaginn 8. september.
Íþróttadeild spáir Selfossi 9. sæti Olís-deildar karla í vetur og að liðið fari niður um fjögur sæti frá síðasta tímabili og missi af úrslitakeppninni í fyrsta sinn síðan Sunnlendingar komust aftur upp í efstu deild.
Sennilegast hefur ekkert lið í Olís-deildinni orðið fyrir meiri blóðtöku frá því síðasta tímabili lauk og Selfoss. Þrír byrjunarliðsmenn, Hergeir Grímsson, Tryggvi Þórisson og Alexander Már Egan, eru allir horfnir á braut og það sem verra er; engir leikmenn eru komnir í staðinn. Hergeir skilur eftir sig risastórt skarð enda óskoraður leiðtogi Selfoss undanfarin ár og besti leikmaður liðsins á síðasta tímabili. Tryggvi var akkerið í varnarleiknum og Alexander allajafna fyrsti kostur í hægra horninu.
Þá hætti Halldór Sigfússon sem þjálfari Selfoss í sumar eftir tveggja ára starf og við tók Þórir Ólafsson. Hann er einn allra dáðasti sonur Selfoss en hefur aldrei þjálfað meistaraflokk áður. Það reynir heldur betur á hann í vetur.
Selfoss hefur undanfarin ár verið með eitt sterkasta lið landsins og varð sem frægt er Íslandsmeistari 2019. Nú virðist blómaskeiðið vera á enda og Selfyssingar neyðast væntanlega til að taka eitt skref aftur á bak til að taka tvö skref áfram. Leikmannahópurinn er þunnur og lykilmenn liðsins verið meiðslum hrjáðir undanfarin ár.
Selfyssingar framleiða þó alltaf leikmenn og nýjasta stjarnan í Mjólkurbænum gæti verið Ísak Gústafsson sem spilaði vel á undirbúningstímabilinu og verður væntanlega í burðarhlutverki í vetur. Selfoss verður að öllum líkindum í baráttu um að komast í úrslitakeppnina en stuðningsmenn liðsins ættu að halda væntingunum í hófi.
Gengi Selfoss undanfarinn áratug
- 2021-22: 5. sæti+undanúrslit
- 2020-21: 4. sæti+átta liða úrslit
- 2019-20 5. sæti
- 2018-19 2. sæti+Íslandsmeistarar
- 2017-18 2. sæti+undanúrslit
- 2016-17 5. sæti+átta liða úrslit
- 2015-16 B-deild (3. sæti-upp í gegnum umspil)
- 2014-15 B-deild (4. sæti)
- 2013-14 B-deild (3. sæti)
- 2012-13 B-deild (5. sæti)
Lykilmaðurinn
Selfoss datt í lukkupottinn þegar félagið samdi við Vilius Rasimas sumarið 2020. Selfyssingar fengu þá svolítið sem þeir þekktu nánast bara af afspurn; markvörslu. Rasimas var frábær tímabilið 2020-21 en náði ekki alveg sömu hæðum á síðasta tímabili. Markvarsla Selfyssinga var samt vel viðunandi. Í vetur reynir sem aldrei fyrr á Rasimas sem þarf að eiga sitt allra besta tímabil til að þeir vínrauðu komist í úrslitakeppnina.
Félagskiptamarkaðurinn
Komnir:
Farnir:
- Hergeir Grímsson til Stjörnunnar
- Tryggvi Þórisson til Sävehof
- Alexander Már Egan til Fram
- Sölvi Ólafsson hættur
Markaðseinkunn (A-C): C
Fortíðarhetja sem gæti nýst í vetur
Selfoss komst fyrst á handboltakortið í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Selfyssingar komust í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn 1992 og í bikarúrslit árið eftir. Einn af lykilmönnunum í þessu fræga Selfoss-liði var Einar Gunnar Sigurðsson. Þessi öfluga skytta var sterk á báðum endum vallarins og spilaði með íslenska landsliðinu, meðal annars á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 þar sem Ísland endaði í 4. sæti. Einar Gunnar gæti hjálpað Selfyssingum heilmikið í vetur enda er breiddin í vinstri skyttustöðunni ekki mikil og nafni hans, Sverrisson, oft og iðulega á meiðslalistanum.