Sport

Tímamót hjá íslenska CrossFit fólkinu eftir níu ára stanslausa velgengni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir var ekki langt frá því að koma Íslandi enn einu sinni á verðlaunapall á heimsleikum.
Anníe Mist Þórisdóttir var ekki langt frá því að koma Íslandi enn einu sinni á verðlaunapall á heimsleikum. Instagram/@anniethorisdottir

Enginn Íslendingur var á verðlaunapalli á heimsleikunum í CrossFit í ár og átta heimsleikja velgengni Íslands er þvi á enda á heimsmeistaramótinu.

Minnstu munaði hjá CrossFit Reykjavíkur liðinu hennar Anníe Mist Þórisdóttur sem var aðeins fjórtán stigum frá verðlaunapallinum í liðakeppninni. Anníe Mist varð að sætta sig við fjórða sætið á hennar fyrstu leikum í liðakeppni.

Bestum árangri einstaklinga náði Björgvin Karl Guðmundsson sem var níundi í karlaflokki en hann varð í fjórða sætinu fyrir ári síðan.

Það þarf að fara alla leið aftur til heimsleikanna árið 2013 til að finna leika þar sem enginn Íslendingur komst á verðlaunapall.

Katrín Tanja Davíðsdóttir náði bestum árangri á þeim leikum þegar hún varð í 24. sæti en það voru hennar aðrir leikar. Anníe Mist Þórisdóttir missti af þeim leikum vegna meiðsla.

Frá og með árinu 2014 hafði Ísland unnið til ellefu verðlauna á heimsleikunum, tveggja í karlaflokki og níu í kvennaflokki.

Katrín Tanja Davíðsdóttir og Sara Sigmundsdóttir höfðu unnið sex af þessum níu verðlaunum en komust ekki á heimsleikanna í ár. Anníe Mist skipti síðan yfir í liðakeppnina.

Bestum árangri af íslensku stelpunum í ár náði Þuríður Erla Helgadóttir sem endaði í 22. sæti.

  • Íslendingar á verðlaunapalli undanfarin ár
  • 2021
  • Anníe Mist Þórisdóttir brons
  • 2020
  • Katrín Tanja Davíðsdóttir silfur
  • 2019
  • Björgvin Karl Guðmundsson brons
  • 2018
  • Katrín Tanja Davíðsdóttir brons
  • 2017
  • Anníe Mist Þórisdóttir brons
  • 2016
  • Katrín Tanja Davíðsdóttir gull
  • Sara Sigmundsdóttir brons
  • 2015
  • Katrín Tanja Davíðsdóttir gull
  • Sara Sigmundsdóttir brons
  • Björgvin Karl Guðmundsson brons
  • 2014
  • Anníe Mist Þórisdóttir silfur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×