Fótbolti

Hólmbert lagði upp jöfnunarmark fyrir markmanninn í uppbótartíma

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hólmbert Aron lagði upp mark fyrir markvörð Lilleström í uppbótartíma.
Hólmbert Aron lagði upp mark fyrir markvörð Lilleström í uppbótartíma. Lilleström

Þrír Íslendingar voru á ferðinni í Norðurlandaboltanum síðdegis. Hólmbert Aron Friðjónsson fagnar þeirra mest.

Hólmbert spilaði allan leikinn í framlínu Lilleström sem gerði 1-1 jafntefli við Tromsö á heimavelli. Tromsö hafði komist yfir á 36. mínútu og leiddi allt fram á 94. mínútu leiksins þegar Hólmbert lagði upp jöfnunarmark Lilleström.

Markið skoraði Mads Christiansen, markvörður liðsins, eftir hornspyrnu og tryggði Lilleström þannig stig. Liðið varð af mikilvægum stigum í toppbaráttunni en eitt er þó betra en ekkert. Lilleström er í öðru sæti deildarinnar með 37 stig, fimm á eftir toppliði Molde, en á þó leik inni.

Brynjólfur Andersen Willumsson spilaði einnig allan leikinn fyrir lánlaust botnlið Kristiansund sem tapaði grátlega fyrir toppliðinu Molde. Kristiansund komst 2-0 yfir eftir stundarfjórðungsleik en missti forystuna niður og tapaði 3-2.

Kristiansund er aðeins með sex stig eftir 17 leiki og er tólf stigum frá öruggu sæti.

Í Danmörku var Íslendingaslagur þar sem Aron Elís Þrándarson byrjaði á miðju OB sem tapaði 2-1 fyrir AGF á heimavelli. Aroni var skipt af velli á 71. mínútu. Mikael Anderson var ekki með AGF í leiknum.

OB hefur ekki farið vel af stað og er á botni deildarinnar með eitt stig eftir fjóra leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×