Sport

Alvöru svar hjá Anníe Mist og félögum í gær: Tóku risastökk í töflunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og félagar hennar sýndu úr hverju þau eru gerð í gær.
Anníe Mist Þórisdóttir og félagar hennar sýndu úr hverju þau eru gerð í gær. Instagram/@anniethorisdottir

Lið CrossFit Reykjavíkur átti erfiðan fyrsta dag á heimsleikunum í CrossFit en þau sýndu úr hverju þau voru gerð á öðrum keppnisdeginum í gær.

Anníe Mist Þórisdóttir skrifaði um vonbrigði fyrsta dagsins á Instagram síðu sinni og að nú væru þau búin að taka út nýliðamistökin. Liðið lét síðan verkin tala í tveimur tengdum greinum gærdagsins. CrossFit Reykjavík náði fjórða sæti í lyftingagreininni og svo þriðja sæti í hlaupagreininni.

Upp um tólf sæti

Anníe Mist skipar liðið ásamt þeim Lauren Fisher, Khan Porter og Tola Morakinyo. Þetta er í fyrsta sinn sem Anníe keppir í liðakeppni heimsleikanna.

Öll þessi stig í gær komu liðinu upp um tólf sæti og Anníe Mist og félagar sitja nú í fimmta sæti eftir fjórar greinar. Hún var líka mjög sátt með daginn.

„Þetta var stórkostlegur dagur. Ein besta tilfinningin fyrir keppnismann er að leggja mikla vinnu á sig til að bæta sig í einhverju og uppskera síðan fyrir liðið sitt eins og gerðist í dag,“ skrifaði Anníe Mist á Instagram.

Anníe Mist stolt

„Við höfum eytt ófáum klukkutímunum á hlaupabrettinu, hlaupabrautinni og það borgaði sig. Ég er stolt af sjálfri mér og ég er stolt af liðinu mínu,“ skrifaði Anníe.

„Þrír dagar eftir og við leggjum allt þetta á okkur fyrir svona daga,“ skrifaði Anníe.

CrossFit Reykjavík er með 292 stig en efsta liðið er CrossFit Oslo Navy Blue með 367 stig.

CrossFit Invictus er í öðru sæti með 355 stig en í þriðja sæti eru síðan ríkjandi meistarar í CrossFit Mayhem Freedom með 352 stig. Í fjórða sætinu koma síðan CrossFit Mayhem Independence með 319 stig.

Mikil spenna á toppnum

Spennan er mikil enda munar litlu á efstu þremur liðunum. Þau vita síðan að íslenska liðið ætlar ekki að gefast upp strax og endurkoman í gær lofar góðu fyrir krefjandi þrjá daga sem bíða.

Þessi góði dagur í gær breytir öllu fyrir íslenska liðið í baráttunni fyrir að komast inn á verðlaunapallinn í mótslok. Annar slakur dagur hefði nánast gert um slíkar vonir en þó að það séu enn 60 stig í þriðja sætið þá lið CrossFit Reykjavík búið að stimpla sig inn á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×