Eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði á móti aðild var Josh Hawley, öldungadeildarþingmaður repúblikana fyrir Missouri, sem sagði málið draga athygli frá raunverulegum andstæðingi Bandaríkjanna; Kína. Sagði hann Bandaríkjamenn geta varið orku sinni í Evrópu eða Asíu, en ekki á báðum stöðum í einu.
Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði í samtali við South China Morning Post að hann vildi gjarnan eiga beinar viðræður við Xi Jinping, forseta Kína, þar sem Kína væri það ríki sem gæti mögulega haft áhrif á stjórnvöld í Rússlandi.
Áhyggjur eru nú uppi um öryggismál í Zaporitsia kjarnorkuverinu í Úkraínu.
Rafael Grossi, yfirmaður alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, sagði fyrr í vikunni að ástandið í verinu, sem er það stærsta í Evrópu, væri komið gjörsamlega úr böndunum. Hvatti bæði Rússa og Úkraínumenn til að greiða fyrir eftirlit af hálfu stofnunarinnar.
Grossi sagði hverja einustu grundvallarreglu er varðaði kjarnorkuöryggi hafa verið brotna.