Samkvæmt svörum Almars við fyrirspurn fréttastofu hefur Garðabær frest til 8. ágúst til að gera frekari grein fyrir málinu. Lögmenn bæjarins, ásamt lögmönnum Fortis, hafa leitað lausna og verður málið aftur tekið fyrir í bæjarráði 9. ágúst.
Fréttastofa ræddi í gær við Hafliða Kristinsson, formann íbúasamtaka Urriðaholts, sem sagði þróun mála gríðarleg vonbrigði fyrir foreldra í hverfinu en mörg börn annað hvort biðu eftir leikskólaplássi eða væru skráð í leikskóla annars staðar. Hann sagði íbúa harma ítrekaðar tafir við uppbyggingu í hverfinu.
Almar bendir hins vegar á að í haust verði tekinn í notkun fyrri hluti leikskólans Urriðabóls, þar sem um 90 börn fái pláss. Þá segir hann börn í Garðabæ almennt komast mun yngri inn á leikskóla en víða annars staðar. Bærinn bjóði foreldrum einnig biðlistagreiðslur vegna barna sem hafa ekki fengið leikskólapláss 12 mánaða gömul.