Körfubolti

LeBron James á leið í fámennan hóp

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fram undan er tuttugasta leiktíð James í NBA.
Fram undan er tuttugasta leiktíð James í NBA. Jason Miller/Getty Images

Körfuboltastjarnan LeBron James, sem leikur með Los Angeles Lakers í NBA-deildinni, mun verða hluti af fámennum hópi manna á komandi leiktíð. Hann mun þá spila sína tuttugustu leiktíð í deildinni.

Aðeins níu leikmenn hafa afrekað það að spila tuttugu leiktíðir í NBA-deildinni. Efstur á lista er Vince Carter sem náði 22 tímabilum á árunum 1998 til 2020 er hann spilaði með Toronto Raptors, New Jersey Nets, Orlando Magic, Phoenix Suns, Dallas Mavericks, Memphis Grizzlies, Sacramento Kings og loks Atlanta Hawks.

Robert Parish, Kevin Willis, Kevin Garnett og Dirk Nowitski spiluðu allir 21 leiktíð í NBA-deildinni og þá léku þeir Kareem Abdul Jabbar, Kobe Bryant og Jamal Crawford 20 tímabil.

James verður því sá tíundi til að afreka það í vetur en tveir aðrir geta gert slíkt hið sama. Carmelo Anthony, sem var liðsfélagi hans hjá Los Angeles Lakers á síðustu leiktíð, og Udonis Haslem, sem spilaði með Miami Heat, geta báðir tekið þátt í sinni tuttugustu leiktíð ef þeir finna sér nýtt félag á meðan henni stendur. en þeir eru báðir samningslausir.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×