Erlent

Talið að níu ára stúlka hafi verið stungin til bana í Boston

Eiður Þór Árnason skrifar
Miðbær Boston með St. Botolph kirkjuna í bakgrunni.
Miðbær Boston með St. Botolph kirkjuna í bakgrunni. Getty/Tornadoflight

Grunur leikur á um að níu ára stúlka hafi verið stungin til bana í miðbæ Boston í Lincolnskíri í Bretlandi. Lögreglan rannsakar málið sem hugsanlegt morð en atvikið átti sér stað klukkan 18:20 að staðartíma í gær.

Lögreglan segir að foreldrar stelpunnar hafi verið upplýstir um stöðu mála. Stóru svæði hefur verið lokað í miðbænum vegna rannsóknar málsins og stóð gagnaöflun lögreglu enn yfir í morgun.

Litlar upplýsingar hafa verið veittar um árásina og liggur lítið fyrir um aðdraganda hennar. Boston er í um 160 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni London. Um 70 þúsund íbúar búa á Boston-svæðinu.

Harmleikur sem hafi komið íbúum í opna skjöldu

Iga Bontoft rekur ráðgjafamiðstöð í Boston og segir samfélagið vera í áfalli eftir atvikið. „Við gerðum ekki ráð fyrir að eitthvað svona geti gerst í nærumhverfi okkar. Við vitum ekki nákvæmlega hvað gerðist en dauði barns er harmleikur sama hverjar kringumstæðurnar eru,“ segir hann í samtali við breska ríkisútvarpið BBC.

Árásin átti stað nærri St Botolph's kirkjunni sem hefur boðið fólki að kveikja á kertum til að minnast stelpunnar.

Paul Skinner, forseti bæjarstjórnar Boston Borough, segist vera niðurbrotinn vegna fregna af þessu „mjög sorglega og hörmulega atviki.“ Erfitt sé að ímynda sér þann sársauka sem fjölskyldan og vinir stelpunnar séu að upplifa og yfirvöld sendi þeim hugheilar samúðarkveðjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×