Innlent

Þurfi að taka sig upp í kyn­lífi til að sanna kyn­hneigð

Ellen Geirsdóttir Håkansson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78.
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Framkvæmdastjóri Samtakanna 78 segir ummæli vararíkissaksóknara toppinn á ísjakanum. Dæmi séu um það að samkynhneigðir menn hafi þurft að taka sig upp í kynlífi til þess að sanna að eigin kynhneigð.

Í viðtali í kvöldfréttum á fimmtudag sagði Helgi Þorsteinsson Silva lögmaður frá því að stjórnvöld hafi sakað skjólstæðing hans um að ljúga til um kynhneigð sína og hafnað honum um hæli. Héraðsdómur sneri við þeirri ákvörðun, þar sem sannað þótti að maðurinn væri samkynhneigður.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari deildi fréttinni á Facebook sama kvöld og skrifaði að auðvitað ljúgi hælisleitendur til um kynhneigð sína. Þá spurði hann hvort einhver skortur væri á hommum á Íslandi.

Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna segir galið að hinsegin hælisleitendur þurfi nokkurn tíma að færa sannanir fyrir kynhneigð sinni til að fá hæli hér á landi. Hún gagnrýnir orð vararíkissaksóknara um að nóg sé af hommum á Íslandi.

Í viðtali í kvöldfréttum í gær segir framkvæmdastjóri Samtakanna 78 ummælin dæma sig sjálf, þau séu ekki bara ósmekkleg og heimskuleg heldur grafi einnig undan trausti á réttarríkinu.

„Í þriðja lagi kannski þá erum við bara að fá að sjá toppinn á ísjakanum um þessa kerfislægu fordóma í rauninni sem þessi hópur verður fyrir,“ segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78.

Aðspurður hvort Samtökin 78 hafi heyrt af því að menn hafi þurft að færa sannanir fyrir kynhneigð sinni segir Daníel mörg dæmi um það. Hann segir Útlendingastofnun og kærunefnd fara langt í rannsóknarvinnu sinni. Ef einstaklingur hafi mögulega verið í sambandi með konu löngu áður en hann kom til landsins sé hann ekki sagður hinsegin og hafnað á þeim grundvelli.

„Svo eru bara fleiri dæmi um að þeir hafi þurft að taka upp myndbönd af sér mögulega í kynlífi við aðra menn til að sanna einfaldlega fyrir stofnunum að þeir séu vissulega hinsegin,“ segir Daníel.

Hvað varðar brottrekstur Helga segir Daníel spurninguna erfiða, „meina það er náttúrulega verið að grafa undan þessu trausti og ég meina það er mjög alvarlegt þannig ég held að ríkissaksóknari, ég held að hún þurfi að hugsa svolítið málið yfir helgina.“


Tengdar fréttir

Helgi segir sér þyki vænt um sam­kyn­hneigða og hafi aldrei haft neitt á móti þeim

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir að sér þyki vænt um samkynhneigða og hann hafi aldrei haft neitt á móti þeim. Það megi þó ekki gera ráð fyrir að hælisleitendur, sem segist samkynhneigðir, segi satt til um það. Formaður Samtakanna 78 segir ummæli Helga skýrt merki um að fordómar séu til staðar innan kerfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×