Katalóníufélagið er skuldum hlaðið en þrátt fyrir það festi Barcelona kaup á pólska landsliðsframherjanum Robert Lewandowski frá Bayern München í vikunni.
Kaupverðið á hinum 33 ára gamla markaskorara er um það bil 60 milljónir evra.
„Barcelona er eina félagið sem á engan pening en getur á sama tíma keypt alla leikmenn sem þeir hafa áhuga á.
Ég skil ekki hvernig þeir fara að því að fjármagna þessi kaup, þetta er mjög skrýtið og í raun bara klikkun," segir Nagelsmann í samtali við Bild um sumarkaup Barcelona en hann er ekki sá eini í fótboltaheiminum sem eru að velta þessu fyrir sér.
Fyrr í vikunni keypti Barcelona brasilíska kantmanninn Raphinha frá Leeds United á tæplega 65 milljónir evra.
Þá hefur Xavi einnig fengið danska miðvörðinn Andreas Christensen og Franck Kessié, miðjumann frá Fílabeinströndinni, til liðs við sig. Þeir komu reyndar báðir á frjálsri sölu.
César Azpilicueta, Jules Koundé og Bernardo Silva eru svo orðaðir við Barcelona en Joan Laporta, forseti Barcelona, hefur sagt að félagið sé ekki hætt á markaðnum í sumar en nú eigi að beina sjónum sínum að því að styrkja varnarlínu liðsins.