Erlent

Berjast við fjölda elda í og við Lundúnir

Samúel Karl Ólason skrifar
Barist er við minnst tíu elda í og í kringum Lundúnir á heitasta degi Englands frá því mælingar hófust.
Barist er við minnst tíu elda í og í kringum Lundúnir á heitasta degi Englands frá því mælingar hófust. Getty/Yui Mok

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Lundúnum þar sem margir eldar hafa kviknað á sama tíma og mikil hitabylgja gengur yfir Bretland og hitamet hafa verið slegin. Hundruð slökkviliðsmanna vinna nú hörðum höndum við að berjast við elda í borginni og úthverfum hennar.

Sadiq Khan, borgarstjóri, segir ástandið alvarlegt en um er að ræða minnst tíu elda, bæði í húsum og í sinu og öðrum gróðri.

Samkvæmt Sky News eru nokkur hús sögð hafa skemmst í einum bæ nærri Lundúnum.

BBC segir minnst 250 slökkviliðsmenn berjast við eldana og hvetur slökkviliðið fólk til að fara varlega og láta vita af eldum um leið og fólk verður þeirra vart.

Hitamet Bretlands var slegið í morgun þegar hitinn mældist 40,2 gráður en síðar í dag er spáð um og yfir 40 stiga hita. Hitamet hafa sömuleiðis verið slegin annars staðar í Evrópu og geisa skógareldar víða. Veðurfræðingur telur ljóst að met muni halda áfram að falla hratt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×