Viðskipti innlent

Kortavelta erlendra ferðamanna aldrei meiri

Samúel Karl Ólason skrifar
Farþegar á Keflavíkurflugvelli.
Farþegar á Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi var 28,3 milljarðar króna í júní. Það er aukning um 27,4 prósent á milli ára og hefur veltan aldrei mælst hærri í júnímánuði frá því mælingar hófust árið 2012.

Kortavelta Íslendinga í útlendum hefur sömuleiðis aldrei verið hærri.

Þetta kemur fram á vef Rannsóknaseturs verslunarinnar en þar segir að fyrir hafi veltan verið mest í júní árið 2018, þá rúmir 25,5 milljarðar króna. Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 24,3 prósent í júní síðastliðnum.

Kortavelta Íslendinga var tæpir 88,4 milljarðar króna í júní og samsvarar það aukningu upp á 6,45 prósent frá júní í fyrra.

Þar af var innlend kortavelta í verslun tæpir 47 milljarðar og er það aukning um 0,96 prósent. Innlend kortavelta í verslun á netinu var rúmir 3,2 milljarðar króna í júní og jókst hún um 11,4 prósent á milli ára.

Sömuleiðis var mikil aukning í innlendri kortaveltu í þjónustu á milli ára. Hún var 41,4 milljarður og jókst um rúm þrettán prósent á milli ára. Allt er miðað við breytilegt verðlag.

Heildarvelta innlendra greiðslukorta í verslunum og þjónustu erlendis hefur sömuleiðis aldrei mælst hærri frá upphafi mælinga, árið 1997. Hún var rúmir 22,9 milljarðar króna, sem er aukning um rúma 11,9 milljarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×