Fótbolti

Sara Björk verður Sara Be-yerk

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Eftir útgáfu leiðbeininganna gæti erlendum aðdáendum íslenska liðsins reynst auðveldara að bera nafn Söru Bjarkar fram.
Eftir útgáfu leiðbeininganna gæti erlendum aðdáendum íslenska liðsins reynst auðveldara að bera nafn Söru Bjarkar fram. Vísir/Vilhelm

Utanríkisráðuneyti Íslands hefur gefið út leiðbeiningar um framburð á nöfnum stelpnanna okkar í landsliði kvenna í knattspyrnu. Liðið leikur sinn fyrsta leik á Evrópumótinu gegn Belgum síðar í dag.

„Fyrir þau sem ekki þekkja til getur íslenskt mál reynst erfitt, þó fallegt sé,“ skrifar ráðuneytið á ensku á Twitter-reikningi sínum.

„Þar sem Evrópumótið er hafið höfum við sett saman gagnlegar leiðbeiningar til þess að hjálpa aðdáendum víðs vegar um heiminn að bera fram nöfn stjörnuleikmanna okkar,“ segir jafnframt í færslunni, sem er á ensku.

Með færslunni fylgja fjórar myndir, með listum yfir nöfn leikmanna liðsins, og hvernig enskumælandi fólk myndi bera þau fram. Þannig er nafni Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, fyrirliða Íslands, snarað yfir í Sara Be-yerk Guh-nars-doht-tir.

Eflaust verða erlendir aðdáendur íslenska liðsins einhverju nær um hvernig eigi að bera fram nöfn leikmanna liðsins, og ef allt gengur að óskum ættu nöfn þeirra að vera á allra vörum þegar líður á mótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×