Fótbolti

Fyrirliði Belga segir að mótið sé nánast búið fyrir þær tapi þær á móti Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tessa Wullaert bregður á leik í UEFA-myndatökunni fyrir Evrópumótið.
Tessa Wullaert bregður á leik í UEFA-myndatökunni fyrir Evrópumótið. Getty/Alex Caparros

Fyrirliði Belgíu ætlar að ræða við Söru Björk Gunnarsdóttur þegar Ísland og Belgía mætast en ekki fyrr en eftir leikinn.

Tessa Wullaert er markahæsti leikmaður belgíska landsliðsins frá upphafi og átti mjög gott tímabil heima fyrir með Anderlecht. Eftir langan feril erlendis fór hún heim og vann titil.

Á síðasta tímabili varð hún bæði belgískur meistari og var kosin besti leikmaður belgísku deildarinnar. Hún er 29 ára og er í frábæru formi en á sínum ferli hefur Wullaert spilað með liðum eins og Wolfsburg og Manchester City.

Wullaert ræddi við UEFA um riðilinn og leikmanninn í íslenska liðinu sem hún þekkir mjög vel.

„Það er enginn auðveldur riðill á EM. Við verðum að gefa allt okkar í alla leiki. Fyrsti leikurinn okkar mun þó ráða miklu um framhaldið,“ sagði Tessa Wullaert um leikinn á móti Íslandi.

„Þessi fyrsti leikur á móti Íslandi. Ef við töpum honum þá er nánast hægt að segja að við séum úr leik í mótinu,“ sagði Wullaert.

„Aðalmarkmið okkar er því að vinna fyrsta leikinn og gefa síðan allt okkar í leikina við Frakkland og Ítalíu. Markmið okkar er að komast upp úr riðlinum og gera þar sem betur en 2017 þegar það tókst ekki,“ sagði Wullaert.

„Ég spilaði með Söru [Björk] Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg og það verður því gaman að hitta hana. Kannski spjöllum við saman eftir leikinn en aldrei fyrir hann,“ sagði Wullaert.

Leikur Íslands og Belgíu hefst klukkan 16.00 og verður fylgst vel með honum hér inn á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×