Halldór Jóhann tók við liði Selfoss sumarið 2020 og hefur stýrt liðinu undanfarin tvö tímabil. Hann skrifaði undir þriggja ára samning og á því eitt ár eftir af samningi sínum.
Þá segja heimildarmenn Vísis einnig að Halldór sé að taka við stöðu aðstoðarþjálfara hjá liði í dönsku úrvalsdeildinni. Ekki er komið fram hvaða lið um er ræðir en félagið stefnir á að tilkynna Halldór Jóhann í kringum næstu helgi.
Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu þegar blaðamaður Vísis náði af honum tali fyrr í dag, en benti þó á að Halldór er enn samningsbundinn liðinu og sé ekki á útleið nema með samþykki deildarinnar.
Halldór hefur komið víða við á þjálfaraferli sínum og hefur ásamt Selfyssingum þjálfað FH, Fram og landslið Barein.