Þetta er mikill viðsnúningur frá sama tímabili árið 2021 þegar veiting óverðtryggðra lána nam meira en 170 milljörðum króna en lífeyrissjóðir hlutdeild lífeyrissjóða var hverfandi lítil, aðeins um 3 prósent. Nær öll óverðtryggð lán voru tekin hjá bönkunum.
Stórir lífeyrissjóðir bjóða í dag betri kjör á óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum heldur en bankarnir. Þannig eru vaxtakjörin 5,35 prósent hjá Gildi lífeyrissjóðir og Lífsverki en á bilinu 6,25 til 6,65 prósent hjá bönkunum.
Hrein ný útlán sjóðanna, þ.e ný útlán að frádregnum uppgreiðslum námu 2,7 milljörðum króna í maí. Þar af námu uppgreiðslur heimila á verðtryggðum lánum um 3,9 milljörðum en veiting óverðtryggðra lána var jákvæð um 6,6 milljarða króna. Til samanburðar nam veiting bankanna á óverðtryggðum húsnæðislánum 16 milljörðum króna í maí og veiting verðtryggðra lána nam einum milljarði.
Frá því í mars 2016 og þar til kórónuveirufaraldurinn skall á hér á landi í lok febrúar 2020 voru lífeyrissjóðirnir mjög umsvifamiklir í veitingu nýrra húsnæðislána og með álíka hlutdeild í veitingu nýrra lána og bankarnir.
Á meðan stýrivextir Seðlabankans voru í sögulegu lágmarki dró verulega úr umsvifum lífeyrissjóða á húsnæðislánamarkaðinum. Frá því í júní 2020 og til október 2021 voru hrein ný útlán sjóðanna neikvæð í hverjum einasta mánuði en samhliða vaxtahækkunarferli Seðlabankans hafa þeir rutt sér til rúms á ný.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur lýst því yfir að honum hugnist ekki þátttaka lífeyrissjóða á markaðinum. „Það er engin launung á því að ég hefði helst viljað að lífeyrissjóðirnir væru ekki beinir þátttakendur á lánamarkaðinum eins og þeir eru í dag,“ sagði seðlabankastjóri eftir vaxtaákvörðunarfund peningastefnunefndar í maí.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, brást við þessum ummælum Ásgeirs og sagði við Innherja að það væru „ákveðin vonbrigði“ að seðlabankastjóri tæki undir þann málflutning forsvarsmanna bankanna sem getur leitt til þess að þátttakendum á samkeppnismarkaði fækki verulega.