„Það var geggjað að vinna deildarleik, ég var búinn að bíða lengi eftir sigrinum. Mér fannst fyrri hálfleikur vera nokkuð jafn, við fengum allt of góð færi til að skora ekki líkt og Skagamenn. Í síðari hálfleik byrjuðum við illa en eftir að við gerðum skiptingu kom líf í okkur sem endaði með marki,“ sagði Sigurður Höskuldsson í samtali við Vísi eftir leik.
Leiknir byrjaði síðari hálfleik rólega en eftir markið komust heimamenn í gang og fengu færi til að bæta við mörkum.
„Mér fannst skrítið hvernig við komum út í seinni hálfleik sem endaði með að við gerðum breytingar og strákarnir sem komu inn á breyttu augnabliki leiksins. Það hefur gengið illa að skora og vinna leiki en þetta mark kveikti í mínu liði.“
„Fyrr á tímabilinu höfum við tvisvar komist yfir og haldið því forskoti í innan við fimm mínútur. Ég var því afar ánægður með hvernig við spiluðum eftir markið og við ætluðum okkur að klára leikinn.“
Á síðasta tímabili eftir ellefu umferðir hafði Leiknir skorað 11 mörk og safnað 11 stigum. Í ár hefur Leiknir skorað átta mörk og safnað sjö stigum. Sigurður taldi liðið fá betri færi á þessu tímabili en nýtingin verri.
„Í fyrra skoruðum við úr færunum okkar. Þegar ég horfi á leikina og skoða tölfræðina þá erum við töluvert betri í ár heldur en í fyrra. Fótbolti snýst um að skora mörk og þegar mörkin koma ekki þá litar það umræðuna en ég er að mörgu leyti mjög ánægður með tímabilið og mér finnst við hafa bætt þá hluti sem við vildum bæta.“
Félagsskiptaglugginn er opinn og Leiknir er að skoða leikmenn en Sigurður mun ekki taka hvað sem er heldur aðeins það sem bætir liðið.
„Ég veit ekki hvaða stöðu ég vill styrkja. Það hafa margir staðið sig mjög vel og mörkin fara að detta með okkur. Við gætum þurft að styrkja breiddina í sóknarleiknum,“ sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson að lokum.