Fótbolti

Andy Goram fyrrum landsliðsmarkvörður Skota látinn

Árni Jóhansson skrifar
Andy Goram fagnar meistaratitilinum 1992 með Glasgow Rangers
Andy Goram fagnar meistaratitilinum 1992 með Glasgow Rangers

Andy Goram sem varði mark Skota á EM ´92 og ´96 og HM ´90 er látinn úr krabbameini einungis 58 ára að aldri.

Það voru breskir fjölmiðlar sem greindu frá andláti Goram rétt fyrir hádegi í dag eftir stutta en erfiða baráttu við krabbamein. Fyrir um mánuði greindi Goram frá því í viðtali að hann ætti eftir hálft ár eftir ólifað eftir að hafa verið greindur með krabbamein í vélinda. 

Goram var mörgum kunnur en hann lék 43 sinnum fyrir skoska landsliðið ásamt því að leika með Glasgow Rangers lengst af og á láni hjá Manhcester United á láni tímabilið 2000-2001.

Á tíma sínum með Rangers vann hann skoska meistaratitilinn fimm sinnum og skoska bikarinn þrisvar sinnum. Þá var hann valinn besti leikmaður skosku deildarinnar bæði af leikmönnum og blaðamönnum tímabilið 1992-1993. Það tímabil unnu Rangers titilinn heimafyrir og rétt misstu af því að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu en þeir lentu einu stigi á eftir Marseille í riðli sínum en franska liðið vann titilinn eftir úrslitaleik við AC Milan.

Goram þótti liðtækur í krikket og átti fjóra landsleiki með skoska krikket landsliðinu en hann er eini Skotinn sem státar af því að hafa spilað fyrir landsliðið bæði í fótbolta og krikket. Krikket ferlinum lauk þegar Walter Smith, stjóri Rangers, skipaði honum að hætta í krikkett til að einbeita sér að fótboltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×