Íslensku stelpurnar unnu ekki aðeins sigur heldur skoruðu stelpurnar líka þrjú mörk og þau öll eftir að liðið náði taktinum í seinni hálfleiknum.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir skoruðu mörk Íslands í 3-1 sigri gegn Póllandi. Leiðtogarnir Sara Björk Gunnarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir voru báðar með stoðsendingu en Agla María vann boltann sjálf.
Íslenska liðið tapaði síðasta leik sínum fyrir bæði EM 2013 í Svíþjóð og EM 2017 í Hollandi.
Í síðasta leik sínum fyrir EM 2013 þá tapaði liðið 2-0 í vináttuleik á móti Dönum á Viborg Stadion.
Á síðasta Evrópumóti fyrir fimm árum þá fóru íslensku stelpurnar á EM eftir að hafa tapað 1-0 á móti Brasilíu á Laugardalsvelli í síðasta leik sínum fyrir mótið.
Fyrir þrettán árum þá fóru okkar konur hins vegar sigri hrósandi á EM eftir 5-0 sigur á Serbíu á Laugardalsvelli en sá leikur var hluti af undankeppni HM 2011.
Liðið tapaði aftur á móti síðasta vináttuleik sínum fyrir þá keppni sem var tæpum mánuði fyrr á móti Dönum.
Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik liðsins á mótinu sunnudaginn 10. júlí og hefst leikurinn kl. 16:00.
- Generalprufurnar fyrir Evrópumótin:
- Síðasti leikur fyrir EM 2022
- 3-1 útisigur á Póllandi
- Síðasti leikur fyrir EM 2017
- 0-1 tap fyrir Brasilíu
- Síðasti leikur fyrir EM 2013
- 0-2 tap fyrir Danmörku
- Síðasti leikur fyrir EM 2009
- 5-0 sigur á Serbíu