Erlent

Krefst þyngri refsingar yfir plast­barka­lækninum

Kjartan Kjartansson skrifar
Paolo Macchiarini á blaðamannafundi um meinta vel heppnaða barkaígræðslu árið 2010.
Paolo Macchiarini á blaðamannafundi um meinta vel heppnaða barkaígræðslu árið 2010. AP/Lorenzo Galassi

Saksóknarar í Svíþjóð áfrýjuðu dómi yfir Paolo Macchiarini, ítölskum skurðlækni, sem er sakaður um að hafa beitt sjúklinga grófum líkamsmeiðingum með plastbarkaígræðslum sínum, í dag. Þeir sækjast eftir því að læknirinn hljóti þungan fangelsisdóm.

Macchiarini var ákærður fyrir stórfelldar líkamsmeiðingar á þremur sjúklingum sem hann græddi tilraunakenndan plastbarka í. Þeir létust allir. Karolinska-sjúkrahúsið rak Macchiarini fyrir brot á siðareglum lækna árið 2016. Hann hafði þá verið sakaður um að falsa ferilskrá sína og gefa rangar upplýsingar um störf sín og rannsóknir að baki plastbarkanum.

Dómstóll í Solna sýknaði hann af tveimur liðum ákærunnar en sakfelldi hann fyrir þann þriðja 16. júní. Hlaut hann aðeins skilorðsbundinn dóm fyrir. Saksóknarar kröfðust fimm ára fangelsisdóms yfir lækninum.

Mikael Björk, aðalsaksóknarinn í málinu, sagði að aðgerðirnar sem Macchiarini gerði á fólkinu hafi öllum tilfellum stangast á við vísindin og góð vinnubrögð, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Mér virðist ljóst að þetta hafi verið algerlega ólögmætar tilraunir á manneskjum og refsingin ætti aðvera langur fangelsisdómur í ljósi eðlis glæpsins og hversu refsiverður hann er,“ sagði Björk.

Alls græddi Macchiarini plastbarka í tuttugu sjúklinga í nokkrum löndum, þar á meðal frá Íslandi. Íslenski læknirinn Tómas Guðbjartsson var á meðal höfunda að grein sem Macchiarini birti um aðferð sína. Opinber siðanefnd í Svíþjóð sem Karolinska fékk til að skoða málið komst að þeirri niðurstöðu að Tómas væri einn þeirra lækna sem bæru ábyrgð á vísindalegu misferli í tengslum við greinar um ígræðslur ítalska læknisins.

Dómstóll á Ítalíu dæmdi Macchiarini í sextán mánaða fangelsi fyrir skjalafals og að misnota aðstöðu sína árið 2019.


Tengdar fréttir

Fer fram á fimm ára fangelsi yfir Macchiarini

Saksóknari í Svíþjóð hefur farið fram á að ítalski skurðlæknirinn Paulo Macchiarini verði dæmdur í fimm ára fangelsi vegna grófra líkamsmeiðinga á þremur einstaklingum sem fengu grædda í sig plastbarka hjá lækninum. Sjúklingarnir létust allir fáeinum mánuðum eftir aðgerðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×