Erlent

Stefna á aðra þjóðar­at­kvæða­greiðslu um sjálf­stæði Skot­lands

Kjartan Kjartansson skrifar
Nicola Sturgeon, oddviti skosku heimastjórnarinnar, ætlar að biðja Boris Johnson forsætisráðherra um leyfi fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu en leita til dómstóla ef hann neitar.
Nicola Sturgeon, oddviti skosku heimastjórnarinnar, ætlar að biðja Boris Johnson forsætisráðherra um leyfi fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu en leita til dómstóla ef hann neitar. Vísir/EPA

Skoska heimastjórnin stefnir á aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands í október á næsta ári. Nicola Sturgeon, oddviti heimastjórnarinnar, segist ætla að draga bresku ríkisstjórnina fyrir dómstóla reyni hún að koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna.

Sturgeon kynnti áform sín og Skoska þjóðaflokksins (SNP) um þjóðaratkvæðagreiðslu 19. október 2023 í dag. Sagði hún að frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðsluna yrði lagt fram síðar en að hún ætlaði að rita Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, bréf og óska eftir leyfi fyrir henni. Neiti hann þeirri bón muni skoska stjórnin leita til hæstaréttar Bretlands

„Það sem ég vil ekki gera og mun aldrei gera er að leyfa skosku lýðræði að verða að fanga Boris Johnson eða einhvers annars forsætisráðherra,“ sagði Sturgeon á skoska þinginu.

Fallist dómstólar ekki á kröfu Skota um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu muni SNP setja sjálfstæði Skotlands á stefnuskrána fyrir næstu þingkosningar, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Skotar höfnuðu sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014 (55% gegn 45%) en töluvert vatn hefur runnið til sjávar síðan. Meirihluti Skota var þannig andvígur útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Því telja skoskir sjálfstæðissinnar tilefni til að greiða aftur atkvæði um aðskilnað frá Bretlandi.

Íhaldsflokkur Johnson er alfarið á móti sjálfstæði Skotlands. Deild flokksins í Skotlandi segir að málið hafi verið endanlega til lykta leitt í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir átta árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×