Nýtt hálendiskort, sem Vegagerðin birti í morgun, sýnir þau svæði hálendisins skástrikuð þar sem akstur er enn bannaður.
Þótt búið sé að aflétta akstursbanni þýðir það þó ekki að vegurinn sé orðinn fær og þurfa vegfarendur því jafnframt að kynna sér færðarkort Vegagerðarinnar, hyggi þeir á hálendisferðir.
Kjalvegur var fyrsta stóra hálendisleiðin sem opnaðist þetta sumarið en Kjölur varð fær þann 10. júní. Kaldadalsvegur var seinna á ferðinni en hann opnaðist 13. júní. Töluverður snjór er hins vegar enn á Sprengisandsleið og ekki reiknað með að hún opnist fyrr en eftir mánaðamót, að sögn Magnúsar Inga.
Báðar Fjallabaksleiðir eru enn ófærar. Þó er búið að opna hluta Fjallabaksleiðar nyrðri úr Skaftártungu og upp í Eldgjá. Minnst þriggja vikna bið verður hins vegar í það að leiðin opnist milli Landmannalauga og Eldgjár þar sem brúin yfir Jökulgilskvísl er löskuð.
Þá er mikill snjór á Mælisfellssandi og ekki búist við að Fjallabaksleið syðri opnist fyrr en eftir mánaðamót. Þó er búist við að Emstruleið úr Fljótshlíð, vegur F261, verði fær um helgina.
Í Skaftárhreppi er búið að opna Lakaleið að Fagrafossi og vonast til að leiðin að Lakagígum opnist eftir helgi.